Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:19:30 (7385)

2004-05-03 17:19:30# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Spyrja má hver séu aðalrökin fyrir að leggja fram frv. sem hér er um að ræða. Hvers vegna stend ég að þessu frv. ásamt félögum mínum í Framsóknarflokknum? Ég mun leitast við að svara hvers vegna.

Grundvallaratriðið er að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum hér á landi er orðið mjög mikil. Þróunin í því efni hefur tekið stökkbreytingum síðustu árin. Í umræðum um þetta mál hefur verið vitnað til mjög athyglisverðrar umræðu sem fram fór um þessi mál árið 1995. Sú umræða fór fram af því tilefni að Íslenska sjónvarpsfélagið hafði keypt 35% í Frjálsri fjölmiðlun. Mér er þetta í fersku minni. Ég var reyndar starfsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar þegar þetta var og sinnti þar störfum ásamt þingmennsku, eins og þeir muna sem voru þá með mér á þingi. Um þetta urðu mjög miklar umræður varðandi eignarhald á fjölmiðlum og samþjöppun í fjölmiðlun hér á landi. Ég verð að segja að þá komu fram, í máli manna eins og núverandi forseta Íslands og hv. þingforseta, Guðmundar Árna Stefánssonar, sem nú situr í stólnum, miklar áhyggjur af þessari samþjöppun. Hún var þó ekki ekki meiri en svo að Íslenska sjónvarpsfélagið hafði keypt 35% í Frjálsri fjölmiðlun.

En hvað hefur gerst síðan? Það skýrir kannski blæbrigðamuninn á afstöðu minni frá áðurnefndum umræðum, það sem hefur síðan gerst. Þá var Morgunblaðið allsráðandi á dagblaðamarkaði, með 52.000 eintök ef ég man rétt og mikinn lestur. Við sem unnum við blaðamennsku þá höfðum áhyggjur af yfirburðum þess, skoðanamyndandi yfirburðum. Nú hefur það breyst. Það er kominn fjölmiðill sem dreift er ókeypis í landinu og hefur upp undir þriðjungi meiri lestur en Morgunblaðið. Þar að auki hefur orðið samruni þessa fjölmiðils og DV, sem var stóri bróðir okkar á Tímanum í því samstarfi sem var innan Frjálsrar fjölmiðlunar. Þessi blöð hafa runnið saman. Það sem meira er, þau hafa runnið saman við aðra sjónvarpsstöðina í landinu. Þarna er náttúrlega gjörsamlega nýtt landslag. Hins vegar ég veit ekki hvort þeir ágætu þingmenn sem töluðu í þessum umræðum hafi séð svo langt fram í tímann. Þeir lýstu áhyggjum sínum af þeirri samþjöppun sem þá var. Nú er landslagið alveg gjörbreytt í þessum efnum og það er ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að setja reglur eins og margoft er tekið fram í áðurnefndum umræðum.

Það frv. sem hér liggur fyrir tekur á reglum um ljósvakamiðla og eignarhald á þeim. Það má spyrja hvers vegna við tökum á ljósvakamiðlunum en ekki dagblöðunum. Það er að sjálfsögðu vegna þess að ljósvakamiðlarnir eru leyfisskyldir en útgáfa dagblaða hér á landi er ekki háð opinberum leyfum samkvæmt íslenskum lögum. Það stendur ekki til að grípa þar inn í. Engar hömlur hafa verið lagðar á útgáfu dagblaða hér á landi.

Í tilmælum Evrópuráðsins segir, svo ég vitni í skýrsluna, með leyfi forseta:

,,... er sérstaklega bent á að ein leiðin til að hafa áhrif á gerð og uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins sé með reglum um úthlutun leyfa til að reka fjölmiðla, einkum hljóðvarp og sjónvarp. Nefndin er sammála þessu og telur, þegar tekið er tillit til aðstæðna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, að þetta sé sú leið sem helst beri að skoða. Ástæða er til að gera greinarmun á dagblöðum annars vegar og útvarpi, hljóðvarpi og sjónvarpi, hins vegar.``

Einmitt þetta er verið að gera með frv. sem hér um ræðir. Með því er tekið skref til að sporna við þeirri samþjöppun sem hér hefur orðið og gefinn er aðlögunartími til að laga sig að hinni breyttu löggjöf. Mér finnst satt að segja að umræðan hafi snúist allt of mikið um ákveðin fyrirtæki í þessu efni frekar en að hún snúi að þeim prinsippmálum sem við erum að tala um varðandi samþjöppunina. Ég vona svo sannarlega að þeim fjölmiðlafyrirtækjum sem starfa í landinu takist að laga sig að þessari löggjöf. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þeim þótt ég sé uggandi út af þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað. Ég trúi því ekki að ekki sé mögulegt, innan þess ramma sem frumvarpið setur, að laga sig að þessum breytta veruleika. Tilgangur frumvarpsins er að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun hér á landi. Það stendur ekki annað til.

Ég vona satt að segja fastlega að það takist að stemma stigu við hinum mikla samruna sem hér er um að ræða og jafnframt takist að tryggja eðlilega fjölbreytni í fjölmiðlun hér á landi. Það er nauðsynlegt varðandi þessi mál og ég tel þörf á að vinna þetta verk. Hér er um prinsippmál að ræða og ekki seinna vænna en að láta af þessu verða.

Nú hafa áreiðanlega verið lesnar allar helstu tilvitnanir í umræðuna sem fór fram 13. febrúar 1995. Ég ætla ekki að lengja þann lestur. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að þessi afstaða mín kæmi fram. Að sjálfsögðu verður þetta frv. skoðað í þingnefnd eins og önnur mál. (Gripið fram í: Var það frá 1995?) Já, ég minntist á umræður sem fóru fram árið 1995. Ég veit að hv. þm. kann þær umræður. Hér hafa ýmsir hv. þingmenn séð nokkuð langt fram í tímann í þessu máli. Hins vegar er ekki víst að þeir séu sömu skoðunar núna en sumir eru farnir af þingi og til annarra starfa.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mér finnst það grundvallaratriði í þessu máli að hér er tekið skref til að sporna við óhóflegri samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði. Ég vona að þeir fjölmiðlar sem starfa hér og hafa unnið ágætlega í mörgum greinum, þótt við séum ekki alltaf ánægð með umfjöllun þeirra um okkur eða okkar mál, geti lagað sig að þessari væntanlegu löggjöf sem vonandi verður til innan tíðar.