Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:31:59 (7388)

2004-05-03 17:31:59# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf líka að komast til skila til ungra framsóknarmanna en greinilega skilja þeir ekkert hvað þingmenn flokksins eru að fara með frv. Menn tala um skref. Ég mundi varla kalla þetta skref. Menn hafa jafnvel talað um að sá skammi tími sem verið er að tala um í bráðabirgðaákvæðinu jafngildi eignaupptöku og þetta séu afturvirk lög og það sé jafnvel hætta á því að þau ríði ákveðnum fjölmiðlum að fullu.

Ég skora á hæstv. ráðherra að koma upp og segja okkur frá því hvort hann taki það til greina að skoða jafnvel smærri skref, taka smærri skref og gefa fyrirtækjunum lengri tíma og jafnvel taka lengri tíma í lagasetninguna. Ég sé ekki að það liggi neitt á. Við gætum þess vegna sett lögin í samráði við sem flesta. Finnst hæstv. ráðherra það ekki eðlilegt?