Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:39:25 (7396)

2004-05-03 17:39:25# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Herra forseti. Það varpar kannski ljósi á undrun margra og mína m.a. á sinnaskiptunum sem mörgum virtist Framsfl. sýna í þessu stóra máli allt í einu og langar mig að vitna aftur í ummæli Jóns Einarssonar, lögfræðings á Sauðárkróki, sem hæstv. heilbrrh. vildi lítið gefa fyrir, þar sem hann segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er meira í ætt við einhverja af martraðarkenndum skáldsögum Frans Kafka. Jafnframt felur frumvarpið í sér minnkað frelsi án þess að séð verði að raunverulega sé þörf á þeirri frelsisskerðingu.``

Aftur vil ég óska eftir því að hæstv. heilbrrh. veiti málefnaleg viðbrögð við þessum hörðu yfirlýsingum í Maddömunni, vefriti ungra framsóknarmanna, þar sem farið er mjög harkalega gegn frv. og þeirri afstöðu sem Framsfl. hefur haft uppi. Það er fullyrt að hún þverbrjóti grundvallarstefnuskrá flokksins og er vitnað í samþykktir á flokksþingum, bæði frá 2001 og 2003. Það brjóti algerlega gegn henni af því að Framsfl. sé frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem eigi að vinna að stöðugum umbótum í samfélaginu. Frumvarpið fari þvert gegn þeim yfirlýstu markmiðum flokksins og því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um viðhorf hans til þessara orða.