Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:12:43 (7412)

2004-05-03 18:12:43# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur með nokkurri athygli og þótti hún þar með gefa tóninn því að hún var, held ég, fyrsti óbreytti stjórnarþingmaðurinn sem talar fyrir frv.

Mér finnst málflutningur stjórnarliða svolítið gefa þann tón að hér sé verið að draga upp einhvers konar pótemkíntjöld um að það sé mikil sátt og einhugur um frv. í stjórnarflokkunum. En er það nú svo, frú forseti? Ég er ekki viss.

Ég var að skoða áðan heimasíðu ungra framsóknarmanna, maddaman.is, og þar er grein sem ber titilinn, með leyfi forseta: ,,Ertu farin að leika þér að hakakrossfánunum hans afa þíns, strákur?``

Þarna eru ungir framsóknarmenn að ráðast, að ég tel, með mjög ómaklegum hætti að hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að hann skuli hafa stutt frv. Höfundur sem mér skilst að heiti Jón Einarsson er í stjórn ungra framsóknarmanna í Skagafirði og varamaður í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna. Þarna er hv. þm. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstfl., sá ágæti drengur, orðaður á mjög ósmekklegan hátt við nasisma fyrir það að hann skuli leyfa sér að tala fyrir frv., sem hinn ungi framsóknarmaður segir að sé meira í anda Hitlers, Stalíns og Kim Il Sungs en frelsis.

Mér þætti mjög áhugavert að fá að heyra það hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur hvort henni þyki þetta í fyrsta lagi bera vitni um að það sé mikill einhugur um frv. hjá stjórnarflokkunum og í öðru lagi hvort henni þyki þetta ekki frekar ómálefnalegur málflutningur af hendi framsóknarmanna í garð samstarfsflokksins í ríkisstjórninni, Sjálfstfl. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra nokkur orð um það.