Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:38:41 (7417)

2004-05-03 18:38:41# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég fagna þeirri umræðu sem fram hefur farið bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu almennt í tengslum við þetta lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég hef hins vegar miklar efasemdir og set mjög ákveðna fyrirvara við þann farveg sem þessu máli hefur verið beint í. Dagblöðin birta mjög athyglisverðar greinar um þetta mál og leiðarahöfundar blaðanna tjá sig. Það er efnt til umræðuþátta í útvarpi og sjónvarpi og í þjóðfélaginu fer fram lífleg umræða manna á meðal um þetta málefni. Umræðan er hins vegar að hefjast.

Ég vil byrja á að leggja áherslu á að þessi umræða verður að fá að eiga sér stað. Það er rangt sem hér kom fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur, þingmanns Sjálfstfl., að hún hafi þegar átt sér stað. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvar 1. flutningsmaður frv. sé niðurkominn og setja fram ósk um að hann verði viðstaddur umræðuna.

(Forseti (JBjart): Forseta er ókunnugt um hvar 1. flutningsmaður heldur sig. Ég geri ráð fyrir að hann sé ekki langt undan. Ég skal koma þessum boðum til hans, ósk þingmannsins um að hann verði viðstaddur umræðuna.)

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að verða við beiðni minni um að vera viðstaddur umræðuna. Honum til upplýsingar þá byrjaði ég á að taka fram að ég fagna þeirri umræðu sem fram fer í tengslum við þetta lagafrv. ríkisstjórnarinnar þótt ég geri mjög ákveðna fyrirvara við framvindu málsins að öðru leyti og þann farveg sem því hefur verið beint í. Ég hef vísað til athyglisverðra greina sem skrifaðar hafa verið í dagblöð, leiðarahöfunda blaðanna, umræðuþætti í útvarpi og sjónvarpi og samræðna manna á meðal í þjóðfélaginu. Ég vil byrja á að leggja áherslu á að víðtæk umræða um þetta mikilvæga mál þarf að eiga sér stað. Ég andmælti því sem fram kom í máli eins þingmanns Sjálfstfl. að umræðan hefði þegar átt sér stað. Því fer fjarri.

Ég vil til samanburðar nefna að síðasta vor, fyrir réttu ári, var fyrirsjáanlegt að á þinginu yrði umræða um skólagjöld í Háskóla Íslands. Enda þótt við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðum mjög skýra sýn á þetta málefni, værum andvíg því að sett yrðu á skólagjöld við Háskóla Íslands, ákváðum við engu að síður að kalla til fundar við okkur fulltrúa háskólastigsins almennt, allra háskólanna í landinu, til að kanna hvort sjónarmið kæmu fram í málinu sem okkur væru ekki kunnug. Við unnum í þessu í fyrrasumar. Á grundvelli þessa höfum við síðan mótað stefnu okkar í þeim málum. Það er þetta sem ég auglýsi eftir í tengslum við þetta mál, sem snertir grundvallaratriði í þjóðfélaginu.

Ágreiningurinn um mál þetta er af ýmsu tagi. Menn skiptast í fylkingar á mismunandi forsendum. Í fyrsta lagi eru til þeir sem vilja reisa skorður við eignarhaldi á fjölmiðlum en eru hins vegar ekki á einu máli um hvernig þær skorður eigi að vera. Er það t.d. rétt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að einn aðili gæti átt öll dagblöðin í landinu eða alla ljósvakamiðla í landinu, en ekki blandað þess á milli þannig að dagblaðseigandi gæti átt útvarpsstöð? Er þetta rökrétt, að reisa skorður við eignarhaldi á þennan hátt?

[18:45]

Ég hef t.d. miklar efasemdir um slíkt og sé ekki rökin á bak við það ef það sem fyrir okkur vakir er að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlaflórunni og taka einnig tillit til eignarhaldsins. Með öðrum orðum, þarna eru mjög mismunandi sjónarmið uppi á meðal manna og mikilvægt að fá góða umræðu um málið til þess að varpa ljósi á hinar ýmsu hliðar þess. Þetta var fyrsta atriðið sem ég vildi leggja áherslu á, þ.e. að málið fái góða, vandaða, lýðræðislega umræðu, ekki aðeins innan veggja Alþingis heldur í þjóðfélaginu almennt. Það er lykilatriði.

Annað atriði sem ég vil leggja áherslu á er að ég tel að eignarhald á fjölmiðlum skipti máli. Stjórn fjölmiðla og eignarhald skiptir máli. Því óskuðum við eftir því á sínum tíma, í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að ráðist yrði í skýrslugerð um efnið og á grundvelli þess sem þar kæmi fram yrði síðan efnt til umræðu í þjóðfélaginu. Eignarhald skiptir máli og stjórn fjölmiðla skiptir máli. Það skiptir máli hvernig Ríkisútvarpinu er stýrt, hverjir gera það og á hvern hátt þeir gera það.

Ég tek einnig undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins frá því fyrir nokkrum dögum þegar hann spyr hvers vegna vopnaframleiðendur vilji eiga fjölmiðil. Niðurstaða hans er sú að viðskiptavinir vopnaframleiðenda séu ríkisstjórnir. Fjölmiðlar kunni að vilja hafa áhrif á ríkisstjórnir með því að hafa áhrif á almenningsálitið. Leiðarahöfundur gefur sér að ef vopnaframleiðandi vildi eignast New York Times yrði uppi fótur og fit á bandaríska þinginu, vegna þess að menn gera sér grein fyrir því að það skiptir máli hver eigandinn er. Það kemur einnig fram í þessum leiðara að hefði, eins og reyndar gerðist, ritstjóri New York Times verið rekinn, hefði orðið nokkur umræða í þjóðfélaginu en sáralítil, vegna þess að menn hafi gert sér grein fyrir að vald eigandans var mikið.

Ég minnist í þessu sambandi viðtals sem ég heyrði við ritstjóra New Statesman, sem er tímarit vinstri sinna í Bretlandi. Hann hafði gagnrýnt Tony Blair forsætisráðherra og ríkisstjórn hans mjög harðlega. Lesendur þess blaðs eru úr þeim ranni. Hann var spurður hvort hann teldi að þetta mundi hafa afleiðingar í för með sér fyrir hann, að hann kynni hugsanlega að glata ritstjórastólnum. Hann sagði: ,,Ég tel að eigendur blaðsins muni fara varlega í sakirnar að hrófla við mér, en á endanum er það eignarhaldið sem skiptir máli. Eigandinn getur sagt mér upp störfum, hann getur rekið mig.``

Við erum að verða vitni að því og munum eiga eftir að ræða það við annað og betra tækifæri, hugsanlega síðar við þessa umræðu eða af sérstöku tilefni, að það skiptir máli hvernig almannaútvarpi og sjónvarpi er stýrt, hvernig farið er með vald þar innan dyra. Það skiptir máli. Þetta var annað atriðið sem ég vildi leggja áherslu á að þessi mál eru mjög umræðunnar verð.

Það er tvennt sem veldur því að menn horfa til þessara mála núna af sérstökum áhuga. Í fyrsta lagi er það staðreynd að á fjölmiðlamarkaði á sér stað mjög mikil samþjöppun. Greint var frá því ekki alls fyrir löngu að undir regnhlíf Norðurljósa væru að sameinast Frétt, þ.e. útgáfufélag Fréttablaðsins og DV, og Íslenska útvarpsfélagið sem rekur Stöð 2, Bylgjuna, Sýn og fjöldann allan af smáum útvarpsstöðvum. Það hefur einnig komið fram varðandi eignarhaldið að um 60% í hinu nýja eignarhaldsfélagi voru tengd Baugi og Feng, aðilum sem eru orðnir firnasterkir og áhrifamiklir í íslensku atvinnulífi, og það er ekkert séð fyrir endann á samþjöppunarferlinu þar. Við getum alveg séð það fyrir okkur að eignarhald á öllum fjölmiðlum í landinu færðust á eina hendi, kæmust á eina hönd, ef, og þá er ég kominn að hinu atriðinu, Ríkisútvarpið væri ekki við lýði. Ríkisútvarpið er mótvægi við einkaaðila á markaði. Þess vegna skiptir höfuðmáli í mínum huga hver framtíð Ríkisútvarpsins verður. Þá horfum við til yfirlýsinga sem gefnar hafa verið af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. sem vilja hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og setja það á markað. Það hefur komið fram frv. frá þingmönnum Sjálfstfl., það liggur fyrir í þinginu. Ég veit ekki betur en einn viðstaddur þingmaður, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, (Gripið fram í: Allir þingmenn flokksins.) og þeir allir sem standa þarna, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Birgir Ármannsson, standi að því frv. Sjálfstfl. hefur ályktað í þá veru. Þetta er því stefna flokksins, en Framsfl. hefur staðið á móti, hefur kannski í þessu eina máli a.m.k. ekki enn alveg lyppast niður. Eða hvað? Hvað sagði hv. þm. Jónína Bjartmarz í umræðu um fjölmiðlamálin fyrir fáeinum dögum? Hún gaf í skyn að nú ætti að svipta Ríkisútvarpið auglýsingatekjum og hæstv. ráðherrar, forsrh. og utanrrh., hafa sagt að nú vilji þeir taka afnotagjöldin af Ríkisútvarpinu, færa tekjustofnana annað þannig að Ríkisútvarpið fái væntanlega úr sama sjóði og Landspítali -- háskólasjúkrahús. Við sjáum nú hvernig er að fara fyrir því ágæta sjúkrahúsi. Niðurstaða fjölmiðla á Norðurlöndum og í Bretlandi er sú að til að halda sjálfstæði útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva sé mjög brýnt að standa vörð um þessa tekjustofna. Hér er hins vegar vegið að Ríkisútvarpinu úr öllum áttum af hálfu stjórnarliðsins. Ég segi því: Áður en umræðan er til lykta leidd vil ég fá umræðu um Ríkisútvarpið og framtíð þess.

Þá er komið að því hvernig á að taka á þeim málum sem liggja fyrir okkur núna. Þegar sameiningin varð, sem ég var að vitna til áðan, samþjöppunin, fannst mér hún að mörgu leyti vera góð. Að því leyti sem hún kæmi til með að styrkja rekstur þeirra stöðva sem hafa átt í miklum erfiðleikum þótti mér hún vera góð. Við vitum að það er óhemjulega dýrt að reka fjölmiðla. Góð og vönduð fjölmiðlun kostar peninga, mikla peninga. Stór og öflugur fjölmiðill sem gerir það gott, rekur öfluga fréttastofu með hæfu fólki og býr þar af leiðandi við innra sjálfstraust, er líklegri til að vera sjálfstæður í vinnubrögðum en fjölmiðill sem berst í bökkum með fólk í brúnni sem er stöðugt í óvissu um framtíð sína. Þess vegna fagna ég því ef fjölmiðlum auðnast að styrkja fjárhagslega stöðu sína. Ég vil fara mjög varlega í því að hrófla við þeim grunni. Ég vil gera það að mjög yfirveguðu ráði vegna þess að ég held að mesta öryggið og aðhaldið gegn misnotkun á fjölmiðli liggi í tvennu. Í fyrsta lagi að vitað sé um eignarhaldið. Allt sem snertir eignarhaldið og allt sem snertir stjórnun sé opinbert, að það sé vitað. Í frv. er reyndar verið að styrkja þann þáttinn, í c-lið 1. gr. varðandi ljósvakafjölmiðlana, en það er hins vegar ekki gert varðandi prentmiðlana. Ég tel að við eigum að stíga það skref hugsanlega núna að setja lög sem geri fjölmiðlum skylt að upplýsa um eignarhald sitt. Ég held að það skipti miklu máli um aðhald utan úr þjóðfélaginu. Ég tel það vera lykilatriði.

Hitt atriðið sem gerir fjölmiðil sterkan og óháðan, jafnvel eiganda sínum, er eins og ég gat um áðan kröftugt starfsfólk sem býr við starfsöryggi. Ef til verður öflug fréttastofa á einkareknum miðli, jafnvel þótt hann búi við samþjappaðan eiganda, stóran, er ég ekki eins hræddur um þá fréttastofu og hina sem er mjög veikburða og þar af leiðandi auðvelt að hafa áhrif á.

Menn hafa rætt svolítið hvort setja eigi reglur og skilyrði til að vernda ritstjórn svo dæmi sé tekið. Ég hef miklar efasemdir um slíkt. Ég held t.d. svo ég taki annað dæmi eða samanburðardæmi, þegar menn hafa velt fyrir sér hvort úrskurður umboðsmanns Alþingis eigi að vera endanlegur, þá tel ég svo ekki vera. Ég tel hins vegar að hann eigi að vinna sér það traust í samfélaginu og trúverðugleika í stofnunum samfélagsins að tekið sé tillit til sjónarmiða. Reyndar er ég þeirrar skoðunar líka varðandi úrskurðarnefnd um jafnréttismál. Ég tel ekki að hann eigi að vera endanlegur. Slík stofnun eða slík nefnd á hins vegar að vinna sér traust í samfélaginu þannig að erfitt sé að ganga gegn slíkum úrskurði. Eins er það með fjölmiðlana, þeir verða að ávinna sér traustið, þá verða þeir sterkir. Við eigum ekki að smíða samfélag sem byggir á reglugerðum og eftirliti heldur á opnu lýðræði og aðhaldi frá almenningi.

Herra forseti. Ég ítreka að ég fagna þeirri umræðu sem er að kvikna í samfélaginu í tengslum við þetta lagafrv. Hún er mjög brýn og hún verður að fá að eiga sér stað.