Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:03:01 (7420)

2004-05-03 19:03:01# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Vagga lýðræðisins hvað okkur varðar er auðvitað hér.

Varðandi þetta mál var ég ekki að segja að skýrsla ein væri nægjanleg endilega. En það er þó örugglega til þess að auðvelda umræðuna að það er búið að kortleggja bæði innlend og erlend dæmi.

Til viðbótar þessu kemur það að við erum ekki að búa til séríslenskar reglur sem hvergi þekkjast. Við erum seinastir allra að fara inn á þessa braut. Það er ekki eins og við séum, eins og reynt er að setja fram til að mynda af hálfu Samfylkingarinnar, í einhverjum hefndarhug gegn einhverju fyrirtæki. Gerðu allir þeir sem settu reglurnar í Noregi, í Skandinavíu, í Evrópu og sem Evrópusambandið var að krefjast, það af hefndarhug? Eða er það bara ég sem geri þetta af hefndarhug? Þetta er málatilbúnaður sem hafður er uppi.

Auðvitað er það ekki þannig. Við erum síðust til þess að fara til þessara verka og við þekkjum reglurnar. Þess vegna er umræðan ekki eins flókin og ella væri.

Varðandi Ríkisútvarpið þá hafa menn talað um að breyta rekstrarskipulagsforminu í hlutafélag. Menn hafa ekki talað um að selja það hlutafé.

Í annan stað vil ég segja, af því að vitnað hefur verið í nýleg orð okkar, bæði mín og hæstv. utanríkisráðherra um afnotagjöldin: Ég er frelsisins maður en byggi það einnig á því að frelsi eins megi ekki ganga yfir frelsi annars. Það tengist þessu máli. Mér hefur alltaf fundist óþægilegt að við þurfum að hafa rukkunarvald fyrir Ríkisútvarpið sem gengur út á það að við getum lokað sjónvarpinu fyrir öðrum stöðvum til þess að innheimta afnotagjaldið. Þessi aðferð fer alltaf í taugarnar á mér. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn þá fundið kannski endilega þá aðferð sem við eigum að nota en ég er opinn fyrir því. Það er það sem ég hef verið að segja og ég hygg að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið að gera það sama, án þess að ég ætli að fara að tala fyrir hans hönd.