Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:09:36 (7423)

2004-05-03 19:09:36# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Það var ekki meining mín að mistúlka orð hv. þm. En sannast sagna taldi ég mig skilja þau á nákvæmlega sama hátt og ég gerði núna þegar ég las frásögn af ræðu hv. þm. í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum, en þaðan hafði ég vitneskju mína. Ég var ekki viðstaddur þessa umræðu. En ég heyri ekki betur en hv. þm. sé að staðfesta að það eigi að stefna að því að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Ég skil ekki orðin á annan veg en þennan, það er til að milda áhrifin af þessu lagainngripi gagnvart þá væntanlega öðrum fjölmiðlum, ekki satt? Þeim eru reistar skorður, settar takmarkanir og til að milda áhrifin af því þá þurfi að draga úr auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins. Ég skil þetta þannig.

Ég ætla hins vegar að leggjast yfir þennan texta. Það er ekki meining mín að mistúlka orðin. Ef við erum í sama liði til að standa vörð um Ríkisútvarpið þá er það ekki nema hið besta mál, nema við erum það náttúrlega ekki að því leyti að hv. þm. Jónína Bjartmarz telur rekstrarformið ekki skipta neinu máli. Ég tel að það sé grundvallaratriði vegna þess, eins og ég sagði hér áðan, að eignarhaldið eitt sér kemur ekki eitt hér til álita heldur stjórnun, og rekstrarform segir okkur til um stjórnunina. Hlutafélagi er stýrt á annan hátt en stofnun í almannaeign.