Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:38:03 (7429)

2004-05-03 20:38:03# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að ég þyrfti ekki að rifja það upp fyrir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að þegar ríkisstjórn flytur frv. verða þau til í Stjórnarráðinu og berast hingað inn.

Hv. þm. spyr um prinsipp Framsfl. í málinu. Þau eru ósköp skýr og ég var að reyna að reifa þau í ræðu minni. Prinsippin eru þau að það má ekki vera fákeppni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við viljum sjá samkeppni, við viljum sjá íslenska fjölmiðla blómstra og þeir munu ekki blómstra ef hér verður fákeppni. Hættan á fákeppni er fyrir hendi ef stórir eignaraðilar drottna á fjölmiðlamarkaði, ég tala ekki um ef sömu aðilar drottna á almennum neytendamarkaði.

Ég hef ekki tíma til að segja mikið meira við hv. þm. annað en að hafi hv. þm. verið áhyggjufullur árið 2002 um þróun íslensks fjölmiðlamarkaðar ætti hann að vera angistarfullur í dag miðað við söguna.