Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:39:16 (7430)

2004-05-03 20:39:16# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Angist mín þessa stundina stafar öll af Framsfl. og hvernig hann hefur lekið niður og orðið viljalaust verkfæri í höndum hæstv. forsrh.

Mér er mætavel kunnugt um hvernig frv. verða til, en ég hef aldrei vitað fyrr að í einni ríkisstjórn séu tveir flokkar og formaður annars flokksins kemur ekki að því að semja frv. Það umdeilda frv. sem hér er til umræðu var samið undir handarjaðri hæstv. forsrh. og einskis annars. Hæstv. utanrrh. sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 30. apríl að hann hefði vitað að frv. væri á leiðinni.

Virðing hæstv. forsrh. fyrir samstarfsflokki sínum er ekki meiri en sú að hann lætur ekki einu sinni flokkinn koma að því að semja frv. Hann kynnir ekki skýrsluna fyrr en sama dag og frv. kemur fram og átti þó frv. að byggjast á skýrslunni.

Hvað heitir þetta? Þetta heitir að vera viljalaust verkfæri.