Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:55:43 (7444)

2004-05-03 20:55:43# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns tel ég rétt, vegna ummæla hæstv. forsrh. fyrr í dag um þann sem hér stendur, að endurtaka nokkuð af því sem ég sagði nýlega í umræðu um hina svokölluð fjölmiðlaskýrslu, með leyfi forseta.

Þar sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hæstv. forseti. Það vill svo til að sá sem hér stendur stóð að þáltill. um starfsumgjörð fjölmiðla sl. haust sem var rædd 2. desember ásamt fleiri þingmönnum. Fyrsti flm. að þáltill. var hv. varaþingmaður Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir. Ég ætla að leyfa mér að vitna í nokkuð sem ég sagði undir þeirri umræðu í upphafi máls míns, en meginefni þáltill. hljóðaði upp á að skipa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla og hræringa á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og hvort huga þurfi að sérstakri lagasetningu eða aðgerðum til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Síðan skipaði hæstv. menntmrh. nefndina sem skilaði af sér þeirri skýrslu`` --- sem við vorum þá að ræða. Síðan vitnaði ég í ræðu mína frá 2. desember 2003.

,,Ég tel það mjög eðlilegt, virðulegi forseti, að í fyrsta lagi sé algerlega skýrt og liggi fyrir og megi jafnvel setja um það lög að það skuli vera opinbert hverjir eigi fjölmiðla á hverjum tíma. Ég held að við hljótum að gera kröfu til þess til að geta dregið ályktanir af því ef okkur sýnist svo hvernig eignarhaldi fjölmiðla er fyrir komið.``

Þetta var fyrra atriðið sem ég vildi láta koma fram. Ég vitna síðan aftur í ræðu mína frá 2. desember 2003, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tillagan fjallar m.a. um það að huga eigi að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlarekstrar hér á landi. ... Ef starfshópurinn eða nefndin sem sett verður á laggirnar kemst að þeirri niðurstöðu að þörfin sé brýn, þá að sjálfsögðu komi menn fram með tillögur í þá veru. Það liggur í hlutarins eðli. En það er alls ekki sjálfgefið af efni tillögunnar að hún sé beinlínis forskrift að lagasetningu. Hún er miklu frekar forskrift að því að skoða gaumgæfilega hvernig starfsemi fjölmiðla fer fram hér á landi og hvernig eignarhaldi á þeim er fyrir komið.``

Í niðurlagi ræðunnar sagði ég, með leyfi forseta:

,,Virðulegi forseti. Ég held að sú till. til þál. sem við ræðum nú um að skoða eignarhald og starfsemi fjölmiðla, hvernig því er varið í framtíðinni, sé af hinu góða og það sé ágætt fyrir okkur að fara í gegnum það. Ég tek það hins vegar fram, virðulegi forseti, að það er ekki sjálfkrafa ávísun á það að við setjum fram stíf eða ströng lög um þetta efni en vel kann þó að vera að það verði niðurstaðan.``

Þetta var meginefni ræðu sem ég flutti í tilefni af þáltill. sem ég flutti ásamt öðrum þingmönnum um að kanna stöðu fjölmiðla á landinu í byrjun desember á sl. ári. Hæstv. forsrh. gerði hana að umtalsefni í dag og taldi, ef ég skildi orð hans rétt, að mín afstaða væri verulega breytt frá því sem verið hefði. En svo er ekki.

Ég hygg að þingmenn Frjálsl. séu því hlynntir að skoða starfsemi fjölmiðla hér á landi en það er ekki sjálfkrafa ávísun á eða samþykki fyrir því að setja þau lög sem það frv. sem hér er til umræðu býður upp á.

[21:00]

Þingmaður Frjálsl., Sigurjón Þórðarson, lagði til á fundi með forseta þingsins í dag að starfstími þingsins yrði ákveðinn, að hann væri t.d. í einn mánuð til viðbótar. Ekkert var ákveðið um framhaldið á þeim fundi svo mér sé kunnugt um.

Þegar umræðan hófst var einnig spurt áður en greidd voru atkvæði um afbrigði hvaða starfstíma þinginu væri ætlað til vinnslu málsins. Við því fengust engin skýr svör. Þess vegna lögðust þingmenn stjórnarandstöðunnar gegn þeim afbrigðum sem átti að veita. Við vildum að vel yrði vandað til verksins og frv. er að mínu viti ekki ásættanlegt, hæstv. forseti.

Ýmislegt í frv. vekur furðu og hægt að tengja við það sem fram kemur í fjölmiðlaskýrslunni en annað er ekki hægt að tengja við hana. Maður spyr: Er skynsamlegt að leggja upp með frv. eins og það er í pottinn búið, að aðilar sem með einhverjum hætti eru með markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi megi ekki eiga krónu í útvarpsfjölmiðlun og það megi ekki vera sömu eignabönd á milli útvarpsfjölmiðla og blaðaútgáfu? Þetta er ein af þeim spurningum sem við hljótum að spyrja og velta fyrir okkur hvort það teljist sanngjarnt miðað við tillöguna eins og hún liggur fyrir í frv.

Það hlýtur líka að verða að spyrja þeirrar spurningar hvort uppsetningin á 1. gr., einkanlega a-liðnum, teljist eðlileg eins og hún er sett fram. Að fyrirtæki, þó þau eigi markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi hér á landi, megi ekki eiga nokkurn hlut í fjölmiðlum. Einnig er áleitin spurning hvort tvö ár séu eðlilegur aðlögunartími í því sambandi þegar ætlast er til þess að fyrirtæki sem nú eiga í frjálsri fjölmiðlun hér á landi fari algjörlega út úr þeirri starfsemi. Ég tel að slík umgjörð í lagasetningu sé ekki ásættanleg og ekki eðlileg framsetning á málinu.

Ef niðurstaða manna við yfirferð og skoðun á málinu verður sú að nauðsynlegt sé að breyta eignarhaldinu verulega frá því sem nú er tel ég að í fyrsta lagi þurfi lengri aðlögunartíma og í öðru lagi sé órökrétt að banna fyrirtækjum, þó stór séu og markaðsráðandi, að eiga aðild í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Mér finnst að skoða þurfi vandlega hvaða reglur menn ætla að setja í því sambandi og ítreka að eins og frv. er fram sett tel ég það óásættanlegt og of harkalega að verki staðið og hef að mínu mati ekki fengið sannfærandi rök fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki með neinum hætti eiga í útvarpsrekstri.

Þar að auki hlýtur að verða að gera þá kröfu, ekki síst í ljósi þeirra ummæla sem m.a. hæstv. forsrh. hafði í kosningabaráttunni þegar verið var að tala um breytt fyrirkomulag í stjórnun sjávarútvegsins og um breytingar á fiskveiðistýringunni með fimm ára og upp í 15 ára aðlögun að þetta væri stórhættulegt og mundi setja allt í þjóðfélaginu á annan endann. Í frv. er hins vegar talað um að það megi ganga til gjörbreytinga á eignarhaldi með tveggja ára fyrirvara.

Ég tel að tíminn verði í fyrsta lagi að vera lengri og í öðru lagi tel ég óeðlilegt að mönnum sé algjörlega ýtt út úr atvinnurekstrinum. Varðandi útfærslu á þessum atriðum væri spurning hvort trappa mætti þetta niður og á lengri tíma. Ég teldi miklu ásættanlegra að stór og öflug fyrirtæki mættu eiga allt að 30% í útvarpsfyrirtæki og að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.

Við nánari skoðun á frv. er þar fjöldamargt sem stangast hvert á annars horn. Útvarps- eða sjónvarpsfyrirtæki má eiga vikublað og netmiðil, jafnvel svæðisútvarp en hin pólitíska útvarpsréttarnefnd, eins og segir í e-lið 1. gr.:

,,Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum a- og b-liðar ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.``

Sem sagt, ef hljóðvarpið er á landsvísu er eignarhaldið bannað, en ef það er á ákveðnu landsvæði má víkja frá þessum skilyrðum. Pólitísk nefnd, útvarpsréttarnefnd, á að samþykkja að víkja megi frá skilyrðunum. Það er því ekki fortakslaust að stórfyrirtæki megi samkvæmt þessu eiga í útvarpsrekstri en hann þarf að vera svæðisbundinn og menn þurfa að fá þá afgreiðslu með undanþáguákvæði frá útvarpsréttarnefnd, eins og frv. er upp sett.

Ég held að fjöldamargt þurfi að skoða í málinu. Það er ekki hægt að tala um það með þeim hætti sem hér er upp sett, um það verður ekki sátt. Þar með er ég ekki að segja, hæstv. forseti, að ekki megi ná einhverri lendingu um eignarhald á fjölmiðlum og einhverri takmörkun í kringum það. Því höfum við alls ekki hafnað í Frjálsl. enda vorum við meðflytjendur að þáltill. um þetta efni. Það hefði kannski verið meiri sátt um málið ef hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hennar hefðu tekið þá þáltill. sem var rædd í byrjun desember og gert hana að sinni, skipuð hefði verið pólitísk nefnd fulltrúa allra þingflokka og farið hefði verið öðruvísi í þá vinnu en gert var og haft samráð við m.a. Blaðamannafélag Íslands og fleiri aðila. Þá værum við kannski nær því að lenda málinu en núna.

Niðurstaða mín, hæstv. forseti, er sú að það þurfi góðan tíma til þess að vinna málið og að við eigum að taka okkur tíma til þess. Þess vegna vorum við á fundi með hæstv. forseta þingsins að leggja til ákveðinn starfstíma á þessu vori ef vinna ætti málið nú til enda, og að það lægi ljóst fyrir áður en veitt yrðu afbrigði hvaða tíma menn ætluðu sér til verksins. En í hvorugu tilfellinu fengust ákveðin svör.

Síðan var mér sagt, ég heyrði það ekki sjálfur, að í fréttum í kvöld hafi hæstv. fjmrh. látið þess getið að hann hefði áhuga á því að koma inn með skattalagabreytingar. Ég sagði í Kastljósi í sjónvarpinu fyrir örfáum dögum að e.t.v. lægi mönnum ekki svo mikið á með frv. í þinginu, að menn væru kannski að vinna sér tíma miðað við framlagningu þess, því frv. var fyrst lagt fram í fjölmiðlum. Það var lagt fram í Morgunblaðinu, kynnt þar sérstaklega og kom tveimur dögum síðar inn í þingið. Þetta var ágiskun mín vegna þess hvernig mér fannst menn fara í málið, því það hefði verið hægt að ræða frv. samhliða fjölmiðlaskýrslunni og flýta þannig eitthvað fyrir. En það var greinilega ekki ásetningurinn. Það skyldi þó ekki vera, hæstv. forseti, að mönnum gengi það til að vinna sér tíma með frv. og ef svo er fer maður að skilja ýmislegt í samhengi málsins.

Eins og ég sagði áðan held ég að við ættum að gefa okkur góðan tíma í málið. Ég skil ekki hvers vegna á að hraða málinu núna á vordögum. Það liggur fyrir, bæði miðað við þá tillögu sem var flutt í byrjun desember, eins og ég gat um áður, og einnig miðað við tillögu sem Samf. hefur kynnt, að það er vilji allra til að skoða málin, en menn eru ekki sammála þeirri málsmeðferð sem ríkisstjórnin leggur upp með og þarf kannski engan að undra miðað við hvernig málið er fram sett.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það sé ágætt að taka þessi mál til umræðu. Skýrslan sem var lögð fram er að mörgu leyti ágætlega unnin og ágætisupplýsingaplagg til að byggja á, en það er fjöldamargt annað sem við hefðum viljað ræða í sambandi við málið. Það hefði t.d. verið mjög nauðsynlegt að mínu viti að ræða um upplýsingaskyldu um eignaraðild að fyrirtækjum, gegnsæi þess.

Ég held að það sé líka mjög nauðsynlegt að taka inn í umræðuna um frv., og vonandi verður það rætt af skynsemi í hv. nefnd, stöðu ritstjórna og blaðamanna gagnvart eigendum sínum, að reyna að tryggja þeim betri og öruggari starfsvettvang þannig að þeir geti mætt þrýstingi, ef upp kemur, frá eigendum sínum og eigi þar ákveðinn varinn rétt.

Það er líka mjög mikilvægt að ræða um útvarp og netmiðla og hvernig sú þróun er að verða. Við getum spurt okkur að því hvaða tökum við náum utan um útvarps- og sjónvarpsrekstur þegar litið er til þeirrar tækni að hægt er að senda allt efnið um gervihnött. Hvernig ætla menn að taka á því? Hafa menn velt því fyrir sér?

Málið er því mjög víðfeðmt og mörg atriði sem þarf að skoða. Þess vegna er það eðlileg krafa sem stjórnarandstaðan hefur sett fram í umræðunum að menn taki sér góðan tíma í málið. Það væri eðlilegt að vinna málið vel og vandlega í sumar og koma aftur að því á haustdögum. Ég sé ekki að það sé neitt sérstakt að fara á hliðina varðandi fjölmiðla í landinu, fjölmiðlaflóran hefur verið fjölbreytt. Ég hef ekki séð að í fjölmiðlum sé gengið þannig á svig við --- hvað við eigum að segja --- sannleikann að eingöngu sé verið að snúa út úr því sem ríkisstjórnin hefur flutt eða sett fram. Ríkisstjórnir fá ákveðið aðhald frá fjölmiðlum og eiga að fá það. Við fáum það reyndar allir þingmenn og sérstaklega ráðherrar og getum ekkert verið að kveinka okkur undan því.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að við erum að tala um atvinnurekstur í landinu, fjölmiðlastarfsemin er atvinnurekstur. Lagaumgjörð um fjölmiðlana er ekki ein og sér takmörkuð, hún hefur áhrif á aðra atvinnustarfsemi í landinu. Það hlýtur að þurfa að líta til þess að það sem við aðhöfumst gagnvart fjölmiðlum getur haft áhrif á annan atvinnurekstur.

Mér finnst líka afar einkennilegt að sá einstaklingur sem vill eiga í útvarpsrekstri þurfi nánast að gera það upp við sig fyrir fram hvort hann vilji eiga í einhverju öðru fyrirtæki. Ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram í frv. og tel að það sé mikið verk óunnið við að lenda því. Ég er jafnframt sannfærður um að verði verkið vel og vandlega unnið megi ná miklu betri lendingu í málinu og miklu víðtækari lendingu en það frv. sem ríkisstjórnin ætlar sér að keyra í gegn.