Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:15:09 (7445)

2004-05-03 21:15:09# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:15]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er oft erfitt að átta sig á málflutningi Frjálslynda flokksins í þingsal. Fyrr í dag þegar málið var tekið á dagskrá talaði hv. þm. Sigurjón Þórðarson og mæltist til þess að þinghaldið yrði lengt fram á sumar og málið klárað á þessu þingi. Nú kemur formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, og leggur til að málið verði rætt í sumar og afgreitt í haust. Það væri ágætt að heyra hver afstaða flokksins er eða hvort menn séu mjög ósammála um þetta.

Ég vildi hins vegar ræða um till. til þál. sem hv. þm. sem hér talaði flutti ásamt öðrum fyrir áramótin. Þar var lagt til, með leyfi forseta, að skipa nefnd sem kannaði eftirfarandi atriði:

,,... hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila ... hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta ... löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum með hliðsjón af markmiði nefndarstarfsins.``

Nú liggur fyrir frv. sem tekur mið af öllum þessum þáttum. Það er að heyra á hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að það sé fyrst og fremst málsmeðferðin sem hann sættir sig ekki við, að ekki hafi verið fallist á að skipa einhverja nefnd með þátttöku stjórnarandstöðunnar til að komast að þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Hv. þm. hælir skýrslunni sem fylgir frv. Formaður nefndarinnar sem vann skýrsluna hefur sagt að frv. byggi á skýrslunni. Hann hælir því starfi. Hann stendur fyrir tillögu fyrir áramót þar sem fjallað er um alla þá þætti sem koma fram nú og blasa við í þessu frv. en sættir sig ekki við málsmeðferðina.

Hæstv. forseti. Þetta finnst mér ómálefnaleg afstaða.