Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:19:25 (7447)

2004-05-03 21:19:25# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:19]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var undarlegt svar hjá hv. þm. Það fengust ágætissvör við því í dag þegar málið var tekið á dagskrá að hér yrði málið afgreitt og þinghald lengt ef á þyrfti að halda. Það var skýrt svar sem hæstv. forsrh. lagði fram enda var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að spyrja hvort málið yrði lagt fram til kynningar eða afgreiðslu og fékk svar við þeirri spurningu.

Það er merkilegt að hv. þm. skuli tala með þeim hætti sem hann gerir og gefa í skyn að ekki þurfi með hraði að bregðast við þeirri miklu samþjöppun sem orðið hefur á fjölmiðlamarkaði. Hann telur að nægur tími sé til þess að ræða málið. Mér heyrist rauði þráðurinn í svari hans vera sá að ríkisstjórnarmeirihlutinn geti ekki lagt þetta mál fram nema hann nái sátt við stjórnarandstöðuna fyrst. Það er mjög einkennilegur málflutningur.

Stjórnarliðar þurfa ekki að ná neinni sátt við stjórnarandstöðuna til að leggja fram lagafrv. Stjórnarflokkarnir hafa lagt fram lagafrv. sem grundvallað er á mjög faglegri skýrslu sem unnin var af fagfólki og tók talsverðan tíma. Mikil gögn liggja þar til grundvallar. Skýrslunni hefur verið hælt, frv. byggir á henni og er í anda þeirrar þáltill. sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson flutti fyrir örfáum vikum. Hann er nú hlaupinn á brott frá því sjónarmiði.