Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:46:06 (7453)

2004-05-03 21:46:06# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að láta í ljós ánægju yfir því að þessi þingmaður Samfylkingarinnar skuli hafa eins og ég áhyggjur af óæskilegri samþjöppun og eignarhaldi í fjölmiðlum. Ég vona að hv. þm. dragi af því réttar ályktanir.

Hann var að spyrja hvar ég hefði verið þegar erfiðlega gekk rekstur ýmissa fjölmiðla. Við vitum alveg að miklar umbyltingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaði nú á síðustu missirum. Eftir því sem Baugur hefur styrkt stöðu sína sem afgerandi sterkasti aðilinn á smásölumarkaði, sem er með flestar auglýsingarnar, og eftir ýmislegt annað sem þar gerðist þá urðu fyrirtæki gjaldþrota og það voru miklir erfiðleikar. En eins og ég sagði þá hefur forstjóri Baugs lýst því yfir hvernig hann telur stöðuna núna og hann telur að hún sé mjög björt.