Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:54:08 (7461)

2004-05-03 21:54:08# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:54]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það staðfestist á ræðu hv. þm. hvaða skoðun þingmenn Samfylkingarinnar hafa á trúverðugleika starfsmanna Ríkisútvarpsins, að þeir séu ekki menn fyrir sínu starfi og (Gripið fram í.) séu óöruggir og ófrjálsir í sínum störfum. Mér finnst mjög undarlegt að heyra hér á Alþingi þessar aðdróttanir í garð starfsmanna Ríkisútvarpsins og skil ekki hvernig á þessu megi standa. (Gripið fram í.) En ég áttaði mig á því þegar ég fór að lesa gamalt Fréttablað og rakst á klausuna þar og ég sé að þingmennirnir eru duglegir að taka þetta upp.

Að öðru leyti vil ég einungis undirstrika það sem hv. þm. veit og allir vita, að það er óæskileg samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum og menn ætla að reyna að draga úr henni með lagasetningu. Þá hlýtur lagasetningin einmitt að beinast að því að draga úr þessari óæskilegu samþjöppun á eignarhaldi. Þetta er nú einfalt. Það þarf ekki hv. þm. Helga Hjörvar til að segja manni það.