Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:56:34 (7463)

2004-05-03 21:56:34# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:56]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú undarleg röksemdafærsla, að það eigi að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og að það sé einn aðili sem sé þar allsráðandi. Ég veit ekki hvernig hv. þm. dettur þetta í hug. Þetta er alveg andstætt því sem menn hafa haldið fram alla tíð. Þetta er ný heimspeki sem þarna er fundin upp. Auðvitað, ef við horfum eitthvað fram í tímann, dregur það úr fjölbreytni og trúverðugleika ef sami aðilinn er eignaraðili að öllum fjölmiðlum. Þetta er alveg augljóst.

Hitt er auðvitað líka merkilegt ef svo skyldi nú vera að Samkeppnisstofnun hafi ekkert hugleitt hvort þarna sé um of mikla samþjöppun að ræða, sem er auðvitað annað mál. En ég get nú ekki skilið að margir hv. þingmenn taki undir með hv. þm. Helga Hjörvar að ef eitt fyrirtæki er markaðsráðandi þá auki það fjölbreytni.