Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:57:48 (7464)

2004-05-03 21:57:48# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:57]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. og hæstv. forseti Halldór Blöndal hafði langt og ágætt mál um nauðsyn ríkisafskipta og inngripa fjölmiðla og stjórnvalda á frjálsan markað fjölmiðlunar og nauðsyn þess að setja sérstök lög sem er stefnt gegn einu sérstöku fyrirtæki. En nú var það lengi trú og grundvallarþáttur í frjálshyggju og markaðshyggju hvers konar að markaðurinn leiðrétti sjálfur allar skekkjur sem myndast gætu á markaði hvort heldur það er á sviði fjölmiðlunar eða annars rekstrar líkt og fram hefur komið í máli margra forustumanna frjálshyggjumanna, t.d. hjá Ólafi Teiti Guðnasyni blaðamanni og frjálshyggjumanni í Kastljósinu á föstudaginn.

Því langaði mig að spyrja hv. þm. Halldór Blöndal hvort hann hafi hafnað því grundvallaratriði hægri stefnunnar og markaðshyggjunnar að markaðurinn leiðrétti sig sjálfur gefist honum tími til þess án hvers konar freklegra inngripa stjórnmálamanna og ríkisvaldsins.