Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:59:50 (7466)

2004-05-03 21:59:50# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:59]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannleikanum er hver sárreiðastur. Eins og við öll vitum þá er það grundvallaratriði í allri frjálslyndri stjórnmálastefnu að sé hlutunum og fyrirtækjunum gefinn friður fyrir inngripum frekra og ráðríkra stjórnmálamanna þá hefur markaðurinn tilhneigingu til þess að rétta sig af sjálfur og leita jafnvægis. Algjört grundvallaratriði í frjálslyndri stjórnmálaumsýslu hvers konar nú á dögum er að gefa fyrirtækjunum frið fyrir inngripum stjórnmálamanna og stjórnvalda hugnist þeim ekki sérstaklega stefna og rekstur fyrirtækjanna tímabundið. Því er það með ólíkindum að heyra jafnglæsilegan fulltrúa hægri manna og frjálshyggjumanna og hv. þm. Halldór Blöndal færa rök fyrir lagasetningu sem er alls ekki almenns eðlis heldur eingöngu sett fram sem sértæk lög til að brjóta upp eitt ákveðið fyrirtæki sem þóknast ekki stjórnvöldum tímabundið. Með ólíkindum er að það eigi og megi eiga sér stað í lýðveldinu Íslandi í dag.