Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:29:02 (7472)

2004-05-03 22:29:02# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins eru í útvarpsréttarnefndum ekki pólitískir fulltrúar en af því að hæstv. forsrh. nefndi Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstfl., spurði ég einmitt um stöðu sem gæti komið upp gagnvart honum. Hann er stóreigandi í banka sem á verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar þetta fyrirtæki. Hann er framkvæmdastjóri Sjálfstfl. og hlýtur að verða litið á hann sem slíkan í umfjöllun um þau málefni sem hér um ræðir. Fleira mætti tína til en ég ætla ekki að nota tíma minn í það hér.

Ég vil koma aftur að þessu með prentfrelsið enn einu sinni, einfaldlega vegna þess að mér finnst það vera miklu stærri atburður en að hægt sé að afgreiða hann sisvona, að einhver aðili í þessu samfélagi megi ekki gefa út prentmiðil. Það er verið að taka prentfrelsið af fyrirtæki í þessu landi. Það liggur fyrir, bara núna, að fyrirtækjum á fjölmiðlamarkaði af þessu tagi er ekki heimilt að gefa út prentmiðil. Þar með er ekki lengur fortakslaust prentfrelsi á Íslandi. Þetta barmmerki lýðræðisins er að því leyti til fallið hér. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að það eigi að gera þetta. Ég hef hana ekki. Ég tel ekki að slíkur voði sé á ferð þó að Norðurljós beri eitthvert blað í hús, hvort sem það væri selt eða gefið.

Hæstv. forsrh. fullyrðir að ekki myndist vandamál á verðbréfaþingi. Ég sé þau samt fyrir mér því að ef eignarhaldið breytist með þeim hætti að ekki passar við þær reglur sem hér eru settar fram missir fyrirtækið innan 60 daga útvarpsleyfi sitt. Það er ekki hægt að hoppa fram hjá svona ákvæði.