Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:48:33 (7478)

2004-05-03 22:48:33# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:48]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz að hún taldi meginrökin fyrir því að setja ætti stífari reglur á Íslandi en í öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við vera fámennið í íslensku samfélagi og smæð markaðarins. Þess vegna ættum við að setja strangari reglur en tíðkast annars staðar. Í rauninni á hið öndverða við. Þegar við skoðum regluverk í öðrum löndum sjáum við einmitt að í stórum ríkjum, á stórum mörkuðum, er regluverkið mun strangara en hjá minni ríkjum á minni mörkuðum. Við þurfum ekki annað en að horfa á Norðurlöndin, þ.e. Finnland, Svíþjóð og Danmörku, sem eru með mjög takmarkað regluverk í kringum eignarhald á fjölmiðlum. Eina ríkið sem hefur sett slíkar reglur á Norðurlöndunum, strangar reglur, er hið norska og Norðmenn eru einmitt núna að endurskoða þær reglur með tilliti til þess að draga úr þessum takmörkunum. Það kemur líka fram í skýrslunni sem unnin var, fjölmiðlaskýrslunni, að það sé almennt á hinn bóginn. Hér segir, með leyfi forseta, að mælikvarðar sem miða við hlutafjáreign eða veltu séu ,,... á undanhaldi, enda hafi reynslan sýnt að fyrirtækjum er tiltölulega auðvelt að fara kringum viðmiðanir og takmarkanir sem lúta að því``.

Ég er hér með grein eftir sænskan prófessor í fjölmiðlafræði, Jens Cavallin, sem er að fara yfir sænska markaðinn og sænska regluverkið. Hjá honum kemur fram --- og það skýrir hvers vegna frv. um þetta fór ekki í gegnum sænska þingið --- að það er talið að það mundi beinlínis brjóta á stjórnarskránni sænsku ef menn reyndu að gera slíkar breytingar án þess að breyta málfrelsisákvæðum sænsku stjórnarskrárinnar. Þetta verða menn að hafa í huga, virðulegur forseti.