Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:52:30 (7480)

2004-05-03 22:52:30# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:52]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átti mjög erfitt með að skilja þessa ræðu hv. þingmanns og fannst hér allt reka sig hvað á annars horn. Ég er búin að hlusta á þennan þingmann tala um það mál sem hér er til umfjöllunar, ekki bara hér heldur á opinberum vettvangi. Fyrst byrjaði þingmaðurinn með þá röksemdafærslu að það væri að sjálfsögðu enginn í fjölmiðlarekstri nema vegna þess að hann vildi hafa völd og áhrif. Það væri ekkert að hafa upp úr fjölmiðlarekstri, þetta væri svo óarðbær atvinnugrein. Þess vegna væru menn í þessum atvinnurekstri beinlínis til að hafa völd og áhrif. Það kann vel að vera að einhverjir séu af þeim sökum í þessu.

Nú halda menn því hér fram, m.a. þessi þingmaður, að í sjálfu sér sé ekkert að óttast við uppstokkun þessara fyrirtækja vegna þess að þau séu arðvænleg. Hér rekur sig hvað á annars horn í málflutningi þeirra þingmanna sem tala um þessi mál.

Þá hefur því líka verið haldið fram í þessari umræðu að þetta séu þjóðréttarlegar skuldbindingar sem við verðum að uppfylla. Hér sagði forseti þingsins í dag að lýðfrjálsar þjóðir setji sér reglur um þetta. Varð Ísland lýðfrjálst árið 2004, með leyfi að spyrja?

(Forseti (ÞBack): Minni hv. þingmenn á að ávarpa hv. þingmenn með réttum hætti.)