Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:57:27 (7483)

2004-05-03 22:57:27# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:57]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Í lok andsvars síns lagði hv. þm. Helgi Hjörvar áherslu á þá þrautagöngu sem sjónvarpsstöð hefði gengið í gegnum til að fá fjármagn. Ég spyr hv. þingmann: Er það eitthvert skilyrði fyrir góðum rekstri á sjónvarpsstöð að um hann sjái markaðsráðandi aðili? Hvers vegna geta ekki önnur fyrirtæki á markaði stutt þetta? Hvers vegna þarf það að vera markaðsráðandi aðili?

Í annan stað hélt hv. þm. því fram að ég hefði sagt, og tekur það úr samhengi, að fjórða valdið væri orðið allt of sterkt. Ég spurði hvort ekki væri hætt við því að fjórða valdið yrði of sterkt og veldi fjölmiðlanna of mikið ef allir fjölmiðlar væru komnir á sömu höndina eða í slíka meirihlutaeign sem nú er. Það er eitthvað sem ég held að sé umhugsunarefni fyrir lýðræðislega umræðu og fjölbreytni.

Það sem ég vakti líka athygli á og spurði eftir er hvort þingmenn Samf. héldu því virkilega fram að eignarhald á fjölmiðlum skipti engu máli. (BH: Hvað eru bankarnir ... markaðsráðandi ...?)