Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:20:28 (7488)

2004-05-03 23:20:28# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:20]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægð með að hv. þm. skuli samsinna sjónarmiðum mínum varðandi það að huga þurfi vel að sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég tel að við getum þá a.m.k. orðið bandamenn í þeirri baráttu.

En um hugmyndina um að leggja af afnotagjöld ríkisútvarpsins vegna þess að þau séu úrelt þá verð ég að segja að menn þurfa ekki að leita mjög langt til að finna aðrar hugmyndir sem eru til staðar varðandi það hvernig megi gera þessa hluti á annan hátt, án þess að skerða eða minnka eða slíta tengsl eigendanna, þjóðarinnar, við miðilinn. Sú leið sem ég hef nefnt í ræðum og hef heyrt fjallað um á afar gáfulegan hátt er sá möguleiki að tengja afnotagjöldin við fasteignir og gjaldið sé innheimt með fasteignagjaldi sem ákveðinn hluti fasteignagjalds. Það væri þar með bundið fast við ákveðnar fasteignir. Þetta er leið sem er vel fær og hefur verið til athugunar að fara, a.m.k. hjá því fólki sem hefur haft áhuga á að velta fyrir sér öðrum möguleikum.

Það er hins vegar eitt sem dettur niður við þetta, t.d. hótelin, sem greiða umtalsverð afnotagjöld af því að þau eru með mikinn fjölda tækja. Það er ekki alveg sama hverjir neytendurnir eða notendurnir eru.

Ég verð að segja að mér finnst það frumhlaup af stjórnarherrunum að koma með þennan þátt inn í umræðuna án þess að hafa velt því fyrir sér hvaða umræða eða hvaða hugmyndir hafa verið á sveimi varðandi þetta mál. Ég segi: Höfum allan vara á þessu því að það að fella einhliða niður afnotagjöld Ríkisútvarpsins og breyta þeim í nefskatt, sem mundi hverfa inn í einhverja hít og gera það að verkum að fólk hætti að finna fyrir því að það væri að greiða til Ríkisútvarpsins, tel ég að vegi að rótum sjálfstæðis Ríkisútvarpsins og vinni þar með gegn sjónarmiðum þeim sem hv. þm. talaði fyrir rétt áðan.