Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 10:33:19 (7556)

2004-05-04 10:33:19# 130. lþ. 109.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Össur Skarphéðinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við teljum að það mál sem hér liggur fyrir sé óþinglegt. Við teljum sterkar líkur á því að það brjóti í bága við þrenn ákvæði stjórnarskrárinnar. Við teljum litlar líkur á því að málið fái þá umræðu sem það þarf til þess að þroskast nægilega til að hægt verði að afgreiða það héðan með sæmilegum hætti.

Við höfum líka lagt fram þá tillögu í framhaldi af nýfundnum áhuga hæstv. ríkisstjórnar á því að fara að tilmælum Evrópuráðsins að þessu máli verði vísað til umsagnar og faglegrar umfjöllunar hjá fjölmiðladeild Evrópuráðsins.

Við lögðumst gegn því að málið yrði tekið hér til afgreiðslu og greiddum atkvæði gegn afbrigðum. Þingið hefur hins vegar tekið þá ákvörðun að málið eigi að fara í þinglega umfjöllun og fara til umræðu í nefndum. Samf. mun greiða því atkvæði og freista þess að nota nefndarvinnuna til að leiða í ljós þá ágalla sem ég hef rakið og sýna ríkisstjórninni fram á að þetta mál sé ekki tækt til afgreiðslu. Við leggjumst samt ekki, eftir að þingið hefur samþykkt afbrigðin, gegn þinglegri meðferð málsins og munum því greiða atkvæði með því að málinu verði vísað til 2. umr. og nefndar.