Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 10:39:39 (7561)

2004-05-04 10:39:39# 130. lþ. 109.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Mörður Árnason (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég er nýliði hér á þinginu eins og komið hefur fram og ég er enn að læra. Mér hefur skilist að þingið ráði sjálft nefndum sínum og taki sjálft ákvörðun um það hvert mál fara og geri það á efnislegum forsendum fyrst og fremst þannig að í nefnd sé einkum unnin vinna á því sviði sem nefndin tekur til.

Hér eru tvö ný dæmi um það að nefndirnar ráðist ekki einkum af efnissviðinu, heldur af því hvaða þokka einstakir ráðherrar, í þessu tilviki hæstv. forsrh., hafa á nefndum. Hann lítur með einhverjum hætti á eina nefnd þingsins sem sína nefnd og vill að mál sín fari þangað. Það eru ekki starfshættir sem við getum unað við samkvæmt þeim skilningi sem mér hefur verið innprentaður en forseti kann að hafa aðrar skoðanir á því.

Eðlilegast væri að þetta mál gengi samkvæmt efnissviði sínu til menntmn. og að aðrar nefndir tækju þá þátt í þeirri vinnu eftir því sem þurfa þætti.