Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:34:08 (7566)

2004-05-04 13:34:08# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), Flm. HBl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er sú að það er nú fyrirsjáanlegt að starfrækslu kísilgúrverksmiðjunnar í Mývatnssveit mun ljúka í lok þessa árs, sennilega í nóvembermánuði, sem hefur það í för með sér að fjöldi manns missir atvinnu sína. Samkvæmt erindi sem alþingismönnum kjördæmisins hefur borist er talið að um 80--100 störf muni tapast á svæðinu og ef við horfum til Mývatnssveitar einnar er ljóst að tíundi hver íbúi þar muni missa vinnuna sem er auðvitað mjög alvarlegt. Slíkur atvinnumissir mun verða keðjuverkandi, enginn vafi er á því, samdráttur sveitarfélagsins verður um þriðjungur og þar fram eftir götunum.

Nú höfðu menn gert sér vonir um að kísilduftverksmiðja mundi taka til starfa. Upphaflega gerðu menn sér vonir um að úrslit þess máls gætu legið fyrir fyrir 1--2 árum og á þeim tíma vissi ég ekki annað en að góðar vonir stæðu til þess. Nú hefur aftur dregist að úrslit ráðist í því máli og síðast þegar ég vissi lá ekki ljóst fyrir hvort nægilegt fjármagn hefði fengist til að stofna til þessa atvinnurekstrar en mér skilst að úrslit þess máls muni liggja fyrir nú í lok þessa mánaðar. Má vera að hæstv. ráðherra viti eitthvað frekar um það en mér tókst ekki í morgun að ná í þá menn sem helst hafa að þessu unnið þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig sú staða er. Eftir sem áður er ljóst að nokkurt hlé verður á því að fullri atvinnu sé hægt að halda uppi í Mývatnssveit, kannski tvö ár. Auðvitað geta menn hugsað sér að einhver hluti íbúanna geti leitað sér vinnu annars staðar til skamms tíma og kannski ekki frágangssök því að íbúarnir vilja búa í Mývatnssveit. Nauðsynlegt er þó að úrslit þessa máls verði ljós eins fljótt og kostur er, ekki síðar en í þessum mánuði.

Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því að ráð er gert fyrir því að kísilgúrverksmiðjan verði rifin ef enginn atvinnurekstur kemur þegar í stað en ég vil leyfa mér að vona að frá því verði horfið, að mönnum gefist svigrúm til að vinna að því að önnur starfsemi komist í þá verksmiðju.

Til þess að átta sig á stærð þessa máls má gera ráð fyrir því að á þessu atvinnusvæði dragist tekjur saman um 800 millj. kr. eða jafnvel 1 milljarð. Nú má ekki skilja orð mín svo að ég telji að leggja eigi árar í bát. Það er ýmislegt hægt að gera í Mývatnssveit. Sveitin býður upp á mikla möguleika, t.d. í ferðaþjónustu, og ég vil sérstaklega vekja athygli á heilsutengdri ferðaþjónustu sem yrði þá í tengslum við það sem við höfum kallað gufubað á þeim stað, eða við getum líka kallað það blátt lón. Ég vil minna á að á sínum tíma varði ríkissjóður mjög verulegu fé til rannsókna og til athugana á Bláa lóninu á Reykjanesi og ég tel að ekki síður sé ástæða til þess að taka til hendinni fyrir norðan. Mikið er í húfi og engan tíma má missa en einmitt atburðir eins og þessi sem líkja má við náttúruhamfarir valda því að allir telja skynsamlegt og rétt að samfélagið komi þar til bjargar og hjálpar með heilbrigðum hætti til þess að hjálpa íbúunum til sjálfsbjargar sem einnig má raunar gera með því að leggja áherslu á ýmsa aðra þætti sem yrðu til þess að auðvelda ferðaþjónustunni að byggja sig hraðar upp. Ég nefni í því sambandi sérstaklega veg niður að Dettifossi sem skiptir máli fyrir alla ferðaþjónustu á þessu svæði og ég get líka nefnt sem dæmi uppbyggingu Sprengisandsvegar, hvort sem menn hugsuðu sér þá að vegurinn kæmi niður í Bárðardal með góðri tengingu við Mývatn eða kæmi austan við Sellandafjall. Skal ég ekki á þessari stundu gera mikið úr því.

Loks vil ég tala um fræðasetur, t.d. á Skútustöðum, sem tengdi þá saman Náttúrurannsóknastöðina, gestastofu, upplýsingamiðstöð og Mývatnssafnið sem gæti orðið stofnun sem drægi fólk að og yrði til þess að byggja upp þetta samfélag.