Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:39:31 (7567)

2004-05-04 13:39:31# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Haustið 2000 varð mér ljóst að til tíðinda gæti dregið með framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn. Þá kom fulltrúi World Minerals sem var meðeigandi ríkisins í verksmiðjunni til fundar í ráðuneytinu og skýrði frá því að í ljósi tapreksturs væri líklegt að þeir yrðu knúnir til að hætta rekstrinum fljótlega. Að mati þeirra væri líklegt að tapið mundi aukast á næstu missirum vegna fyrirsjáanlegra kostnaðarhækkana. Verksmiðjan væri komin til ára sinna og ekki lengur samkeppnisfær. Að auki bentu framtíðarspár fyrirtækisins til þess að notkun kísilgúrs til síunar væri á undanhaldi, m.a. vegna tækni og þróunar á markaðnum.

Þetta voru alvarleg tíðindi sem því miður reyndust á rökum reist og styrktust meðeigendur okkar í Kísiliðjunni jafnt og þétt í þeirri trú að lokun verksmiðjunnar væri óumflýjanleg. Í viðræðunni þá kom engu að síður í ljós vilji til að skoða aðra valkosti og að ekki mundi koma til fyrirsjáanlegrar lokunar.

Á sama tíma og mál þróuðust með þessum hætti kom að nýju fram áhugi hjá fyrirtækinu Allied EFA um kaup á Kísiliðjunni. Allied EFA hafði frá árinu 1998 unnið að þróun á nýrri framleiðsluaðferð á kísildufti og hafði m.a. komið til álita að reisa tilraunaverksmiðju fyrir kísilduftframleiðsluna í Kísiliðjunni. Af því varð þó ekki en Kísiliðjan við Mývatn var áfram til skoðunar sem hagkvæm staðsetning fyrir verksmiðju, einkum vegna þess að framleiðsla á kísildufti og kísilgúr gat farið saman.

Þegar þrengdi að rekstri Kísiliðjunnar á síðari hluta ársins 2000 og viðræður hófust á milli iðnrn. og World Minerals um framtíðarstarfsemi við Mývatn kom fram skilningur frá meðeigendum okkar á mikilvægi þess að nauðsynlegt væri að skapa svigrúm til endurnýjunar atvinnulífsins við Mývatn þegar framleiðsla Kísiliðjunnar legðist af. Nýr forstjóri fyrirtækisins sýndi hugmyndum Allied EFA um byggingu kísilduftverksmiðju mikinn skilning og á árinu 2000 var kominn góður skriður á viðræður á milli Allied EFA og eigenda Kísiliðjunnar um sölu hennar.

Sem hluti af þeim viðræðum var eftirminnilegur fundur ráðuneytisins og World Minerals í New York í janúar 2001. Þar skýrði forsvarsmaður ítarlega frá greiningu sinni á stöðu kísilgúrvinnslunnar við Mývatn, stöðunni á heimsmarkaði, líklegri tækniþróun og mati á þróun heimsmarkaðar fyrir kísilgúr næstu árin. Að þeim fundi loknum var alveg ljóst að rekstri kísilgúrverksmiðjunnar yrði hætt mjög fljótlega. Jafnframt var það skýrt að brýnasta verkefni ráðuneytisins væri að tryggja eftir því sem hægt væri áframhaldandi iðnaðarframleiðslu við Mývatn.

Í framhaldi af þessu gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Samningar náðust og var endanlega gengið frá sölunni til Allied EFA þann 30. mars 2001. Mikilvægt atriði í samningi World Minerals og nýrra eigenda Kísiliðjunnar var sölusamningur þar sem World Minerals skuldbatt sig til að selja afurðir verksmiðjunnar í takmarkaðan tíma sem lýkur um áramót og ekki reyndist unnt að framlengja. Ástæða þess er að markaður í Evrópu fyrir kísilgúr hefur dregist saman vegna offramboðs.

Á sama tíma skoðaði iðnrn. aðra valkosti í atvinnuþróun fyrir héraðið. Ríkisstjórnin hafði samþykkt að verja hluta af söluandvirði Kísiliðjunnar til atvinnuuppbyggingar þar. Með tilliti til sérkenna svæðisins og sérstakrar náttúru varð niðurstaðan sú að besti kosturinn væri að efla ferðaiðnað og standa við bakið á metnaðarfullri uppbyggingu á baðlóni í Mývatnssveit. Framkvæmdir við baðlónið hafa gengið samkvæmt áætlun og er ráðgert að opna það innan fárra vikna.

Þá hefur verið fjárfest í félagi um framleiðslu á pólýóli og fara þeir fjármunir til skoðunar á staðsetningu slíkrar verksmiðju við Húsavík. Þróun framleiðslutækninnar fyrir kísilduftverksmiðjuna gekk vel og er nú lokið. Til að liðka fyrir fjármögnuninni ákvað ríkisstjórnin að verja 200 millj. kr. til hlutafjárkaupa í kísilduftverksmiðjunni og leggja þannig veigamikið lóð á vogarskálina. Hefði önnur fjármögnun gengið greiðar hefði líklega orðið samfella í iðnaðarframleiðslu við Mývatn eins og að var stefnt hjá hinum nýju eigendum Kísiliðjunnar. Seinkunin á fjármögnun hefur verið mjög bagaleg fyrir eigendur fyrirtækisins, fyrirtækisins Promex, og leitt til kostnaðarauka fyrir þá. Engu að síður er staðan nú þannig að vonir standa til að fjármögnun ljúki í þessum mánuði og að framleiðsla geti hafist í byrjun ársins 2006.