Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:44:56 (7568)

2004-05-04 13:44:56# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Við ræðum utan dagskrár enn eitt áfallið í atvinnumálum ákveðins staðar á landsbyggðinni. Nú ræðum við um ástand og horfur í Mývatnssveit.

Eins og fram hefur komið missir tíundi hver maður sveitarfélagsins vinnu sína við lokun verksmiðjunnar. Til samanburðar jafngildir það um 2.500 störfum í Kópavogi.

Ég er þeirrar skoðunar að við svona áfall í atvinnumálum byggðarlaga eins og hér er gert að umtalsefni verði ríkisstjórnin að koma myndarlega að málum og gera allt sem hægt er að gera til að lágmarka sem allra mest það áfall með tilheyrandi hugsanlegri varanlegri byggðaröskun og enn meiri erfiðleikum viðkomandi sveitarfélags og viðkomandi íbúa. Heimamenn hafa sem betur fer á fundi með þingmönnum kjördæmisins nefnt fjölmörg atriði sem hægt væri að ráðast í eða flýta framkvæmdum við á þeim millibilstíma sem skapast frá lokun Kísiliðjunnar til opnunar kísilduftverksmiðjunnar sem verður vonandi að veruleika sem allra fyrst. Allar slíkar tillögur verður að skoða með opnum huga, herra forseti. En því miður er þessi ríkisstjórn ekki þekkt að slíkri vinnu og aðgerðum til hjálpar eða öllu heldur varnar hinum ýmsu byggðum landsins sem lent hafa í atvinnulegum áföllum eins og nú stefnir í í Mývatnssveit.

Það er þjóðhagslega óarðbært, herra forseti, að láta áföll atvinnumála á landsbyggðinni sig engu varða eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert undanfarin ár. Tölur um fækkun íbúa fjölmargra sveitarfélaga eru vitni um slíkt. Hæstv. ríkisstjórn lokar augunum, ráðherrar gera ekkert og tala jafnvel um að ekkert sé hægt að gera, eins og t.d. hæstv. ráðherra byggðamála sem þó hafði ráð undir rifi hverju í kosningabaráttunni og ætlaði allt fyrir alla að gera ef hún hlyti atkvæði þeirra og ríkisstjórnin héldi velli. Hún ætlaði að fjölga atvinnutækifærum í hverju byggðarlagi, lækka flutningskostnað, bæta samgöngur, auka byggðakvótann o.s.frv.

Herra forseti. Mín síðustu orð skulu vera þessi til hæstv. ríkisstjórnar og þá alveg sérstaklega byggðamálaráðherrans: Opnið augun. Atvinnumál landsbyggðarinnar eru sífellt að versna og það þarf aðgerðir í stað aðgerðaleysis núverandi hæstv. ríkisstjórnar.