Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:56:42 (7573)

2004-05-04 13:56:42# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ja, mikil er trú þín, ungi maður. Það er ekki annað hægt að segja eftir ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar. Við vonum auðvitað að trú hans rætist og hæstv. iðnrh. nái að bæta það alvarlega ástand sem nú er í Mývatnssveit. (BJJ: Er það ekki bara von?) Vissulega, hv. þingmaður, þurfum við að hafa von og það er ekki verra þegar við höfum trú með voninni. Við vonum að þetta gangi allt sem best en það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að þetta millibilsástand verður. Þeirri spurningu er óhjákvæmilegt að velta upp hvernig á því stendur að ekki var staðið betur að þessum undirbúningi öllum þannig að þetta millibilsástand skapaðist ekki.

Millibilsástandið með þeirri óvissu sem því fylgir er grafalvarlegt mál. Það er alvarlegt þegar ekki er vitað hvort kísilduftverksmiðjan tekur við eður ei. Það er hins vegar jákvætt að sagt hefur verið að það muni liggja fyrir í þessum mánuði hvort svo verður eða ekki. Ákvörðun um framtíðina byggist algjörlega á því hver niðurstaða þess máls verður og við sjáum hversu alvarlegt þetta mál er af þeim tölum sem hér hafa verið nefndar. Um tíundi hver maður í Mývatnssveit missir vinnuna þegar verksmiðjan lokar, á svæðinu eru þetta um 80--100 störf og keðjuverkunin er margs konar. Það er m.a. mikið áhyggjuefni á Húsavík hvernig verður með skipaumferð þar þegar verksmiðjan lokar vegna þess að sá flutningur sem átt hefur sér stað til verksmiðjunnar í Mývatnssveit hefur verið helsta tekjulind hafnarinnar og þannig má lengi áfram telja.

Herra forseti. Lykilspurningin er, og það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari henni: Hvað geta opinberir aðilar gert til að tryggja þá fjármögnun sem nú er svo mikilvægt að tryggja á næstu dögum? Það kom t.d. fram á fundi okkar með forsvarsmönnum sveitarfélagsins í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, að Byggðastofnun hefði með lánsloforðum sínum gert þá kröfu að fjármagn kæmi á móti, m.a. frá sveitarfélaginu. Okkur er spurn: Hvernig á sveitarfélag við þær aðstæður sem hafa skapast í Mývatnssveit að geta tryggt slíkt fjármagn?