Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:46:52 (7582)

2004-05-04 14:46:52# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er virkilega hægt að deila áhyggjum með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um þann kostnað sem fylgir þessu frumvarpi. Við 1. umr. þessa máls gerði ég það sérstaklega að umræðuefni hér úr þessum ræðustól að eins og frumvarpið hafði þá verið kynnt, og talaði ég um þær kvaðir sem því fylgdu, að ég sæi ekki annað en kostnaðurinn af frumvarpinu yrði verulega meiri en hæstv. ráðherra hafði þá gert grein fyrir. Ég held að heimsóknir gesta okkar í samgöngunefnd hafi leitt í ljós að sums staðar verður kostnaðurinn verulega meiri og ekki er óvarlegt að áætla þegar allt er talið, kostnaður í höfnum, einkum þeim sem taka á móti vöruflutningaskipum í meira mæli en aðrar hafnir, að samanlagður kostnaður hafna allt í kringum landið muni, gæti ég vel trúað, nálgast milljarð þegar upp er staðið.

Auðvitað verður einhvers staðar að innheimta þennan kostnað. Eins og hv. þm. vék hér réttilega að áðan var breyting á hafnalögunum á síðasta ári ekki til þess fallin í mörgum tilfellum að laga stöðu hafna vítt og breitt um landið þó kannski stærstu vöruhafnirnar hafi ekki farið halloka út úr því dæmi. Svo er sérstakt áhyggjuefni hvernig gjöld og sá kostnaður sem hér verður til mun innheimtast. Það er alveg ljóst að smátt og smátt mun þessi kostnaður færast yfir á neytendur. Hann mun hvergi enda annars staðar. Af því tilefni er því alveg hægt að taka undir það með hv. þingmanni að það er margt í þessu að athuga. En þetta eru alþjóðareglur sem við neyðumst til að gangast undir, því miður.