Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:56:18 (7587)

2004-05-04 14:56:18# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Birkir J. Jónsson er fullur áhuga á innra starfi Samfylkingarinnar. Ég skil það vel vegna þess að eins og hlutum hefur undið fram í hinu háa Alþingi þá sýnist mér að Framsóknarflokkurinn sé að verða að engu. Því er það fullkomlega skynsamlegt af hv. þm. Birki J. Jónssyni, svo ungur sem hann er, að leita sér að nýjum samastað í sinni pólitísku tilveru. Veri hann velkominn.

Ég spurði hv. þm. um það áðan hérna hvort hann hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni í samgöngunefnd til þess að reyna að grafast fyrir um hvað það kosti atvinnulífið að taka á sig þessar nýju sex tegundir eftirlitsgjalda sem hér er verið að leggja á atvinnulífið. Hvað kostar það? Er það ósanngjörn spurning, herra forseti, að ég spyrji hv. þm. sem (Gripið fram í.) telur sig hafa svona gott vit á þessu máli, hvað þetta sem hann er hér að samþykkja kosti atvinnulífið. Og af hverju spyr ég hann umfram aðra? Vegna þess að hv. þm. var hér í ræðu fyrr í dag að ráðast á hv. þm. Kristján L. Möller vegna þess sem honum þótti ekki nægilega skarpur skilningur á stöðu atvinnumála á landsbyggðinni. En nú skal ég taka ómakið af hv. þm. Birki J. Jónssyni og segja honum hvað þetta kostar vegna þess að ég hef sinnt minni þinglegu skyldu til þess að grafast fyrir um það. Þetta kostar 300 milljónir. Hv. þm. Birkir J. Jónsson var að guma af því hérna áðan að einn af leiðtogum lífs hans, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir, hefði barist fyrir því að setja 200 milljónir í atvinnulíf á landsbyggðinni. En nú kemur hv. þm. Birkir J. Jónsson og hann tekur til baka 300 milljónir. (Gripið fram í.)