Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:23:25 (7598)

2004-05-04 15:23:25# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson getur leitað í útskrift ræðu minnar þegar búið verður að skrifa hana til að komast að raun um hvað ég sagði. Það er tóm vitleysa að ég hafi sagt að óhjákvæmilegt væri að taka upp þessi gjöld. Það sem ég sagði var að það er óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga annað en að samþykkja lögin í samræmi við þær alþjóðlegu samþykktir sem við höfum gert og þær skuldbindingar sem við höfum axlað.

Við eigum hins vegar tveggja kosta völ, sérstaklega á Sjálfstfl. tveggja kosta völ þegar kemur að því að mæta kostnaðinum. Annars vegar getur hann staðið við það sem hann hefur lofað sjálfur, að spara og hagræða til að skapa svigrúm til að mæta auknum kostnaði og útgjöldum eins og þessum. Á hinn bóginn getur hann gengið gegn því sem flokkurinn hefur sjálfur sagt, um að draga úr eftirlitsiðnaðinum, með því að gera nákvæmlega það sem hann leggur til í þessu frv., að setja á ekki eitt, ekki tvö ekki þrjú, ekki fjögur, ekki fimm, heldur sex ný eftirlitsgjöld.

Hvernig má það vera, herra forseti, að Sjálfstfl. tapar á stundum svefni af áhyggjum sínum yfir eftirlitsiðnaði sem hann telur eitt helsta mein atvinnulífsins? Síðan kemur hæstv. samgrh. með tilstyrk hv. þingmanna Sjálftsfl. og skirrist ekki við að leggja fram frv. sem felur í sér nýjar álögur á atvinnulífið, sex tegundir nýrra gjalda. Hafa menn einhvern tímann séð skarpari greinarmun á því sem sagt er og því sem gert er? Ég get ekki bent á betra dæmi um það.