Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:47:09 (7601)

2004-05-04 15:47:09# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, EMS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þar sem ég hafði ekki tök á að vera viðstaddur 2. umr. þessa stóra máls tel ég nauðsynlegt að víkja að nokkrum atriðum við þessa umræðu.

Sú umræða sem farið hefur fram um frv. í dag hefur að mörgu leyti verið fróðleg. Þar hefur eðlilega borið mest á þeim mikla kostnaði sem óhjákvæmilega mun hljótast af frv. þegar það verður samþykkt og tekur gildi þann 1. júlí. Það hefur einnig komið fram í umræðunni að ástæðan fyrir framlagningu þess er sú að alþjóðasamþykktir liggja fyrir sem gefa okkur í raun engan kost í málinu. Við verðum að uppfylla þau skilyrði sem hér er um fjallað, ella væri útflutningur okkar allur í uppnámi. Þannig er ljóst að þrátt fyrir að kostnaðurinn sem hér kemur til sé gífurlegur þá yrðu afleiðingarnar okkur enn kostnaðarsamari ef ekki tækist að uppfylla þessi skilyrði.

Í þessu samhengi má nefna nokkuð sem fram kom í viðamiklum störfum nefndarinnar, að 97% af öllum innflutningi til Bandaríkjanna kemur frá 40 höfnum í heiminum. Það eru þær hafnir sem langstrangasta eftirlitið hafa. Það eru stórar hafnir sem væntanlega geta sett enn strangari kröfur en við. Hjá nokkrum aðilum sem heimsóttu okkur kom fram sá ótti að það gæti þess vegna gerst, mér liggur við að segja á hverri stundu, að Bandaríkjamenn settu slík skilyrði að þeir tækju eingöngu við vörum frá þeim 40 höfnum. Því miður erum við hluti af þeim 3% sem eru utan við þessi 97%. Það er því augljóst að við þurfum að fylgjast vel með og, því miður verð ég að segja, vera viðbúin því að fram verði settar auknar kröfur. Nefnd hafa verið nokkur dæmi þar um, m.a. að búast megi við því að allir gámar þurfi að fara í gegnum skönnun eins og farangur okkar þegar við förum úr landi. Það mun gjörbreyta allri þeirri mynd sem við búum við í dag varðandi útflutning.

Við verðum að fylgjast með á þessu sviði. Ég tek undir orð annarra hv. þingmanna varðandi það að við þurfum líka að fylgjast með því hvernig þetta frv., þegar það er orðið að lögum, verður í framkvæmd. Það hefur verið rætt um að hugsanlega þurfi að endurskoða einhver ákvæði þegar á þau reynir. Það er ljóst að þrátt fyrir að mikil vinna hafi farið fram í nefndinni þá var mikil tímapressa á verkinu vegna þess að dagsetningin er 1. júlí. Það varð ekki undan því vikist að afgreiða málið fyrir þinglok og mætti segja að helst hefði þurft að vera búið að afgreiða það. Meðan frv. hefur ekki verið samþykkt hafa t.d. gjaldskrár og reglugerðir ekki verið útgefnar. Þannig verður naumur tími fyrir menn til að uppfylla allt það sem gera þarf.

Það er óhjákvæmilegt að koma örlítið inn á það sem mér þótti sérkennileg viðkvæmni einstakra samnefndarmanna minna í samgn. varðandi ágæta ræðu hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem fór auðvitað vítt yfir sviðið hvað varðaði kostnaðinn. Ég taldi að það hefði ekki átt að koma nokkrum nefndarmanni á óvart. Auðvitað blasir við að mikill kostnaður fylgir þessu. Það sem væntanlega hefur snert viðkvæmnistaugina hjá hv. þingmönnum var að hv. þm. dró upp þá mynd að þetta væri ekki alveg í fullu samræmi við ýmislegt sem sumir stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni, varðandi það að draga úr gjaldtöku og minnka báknið. Eftirlitsiðnaður má vart sjást o.s.frv.

Auðvitað var það þannig í nefndinni að við fórum yfir þetta. Þess vegna kom mér á óvart að þetta hreyfði við mönnum. Þetta var eitt af því sem við skoðuðum. Ég man sérstaklega eftir þeirri umræðu í tengslum við það þegar nokkrir aðilar töldu að á margan hátt væri eðlilegra að leggja á eitt gjald. Sameiginleg niðurstaða okkar í nefndinni var að það væri ekki rétt að hafa gjaldtökuna með þeim hætti. Ég er sannfærður um að það er miklu vænlegri kostur að hafa þessa framkvæmd hjá sveitarfélögunum en ekki hjá stóra bróður. Sveitarfélögin hafa sýnt það í gegnum tíðina að þau eru yfirleitt hæfari en ríkisvaldið til að draga úr kostnaði og halda honum í algjöru lágmarki. Það var auðvitað það sem við vorum að leita eftir í nefndinni, að reyna að tryggja að sá mikli kostnaður sem óhjákvæmilega leggst á verði í algjöru lágmarki.

Það er ljóst að þessi kostnaður getur hvergi endað annars staðar en að verða tekinn úr vösum neytenda. Þar mun hann auðvitað enda. Þetta mun hafa einhver verðbólguáhrif o.s.frv. og það skiptir máli.

Hún var í senn athyglisverð og sérkennileg viðkvæmnin hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni, sem að vísu kom okkur ekki algerlega á óvart þegar hann fór að hafa áhyggjur af þingmönnum Samf. í samgn. Það er þakkarvert að hv. þm. skuli bera svo mikla umhyggju fyrir okkur þótt hún hafi verið byggð á misskilningi. Með orðum sínum fannst mér hann í raun loka þeirri mynd sem hann hóf að draga upp í umræðum í dag, þ.e. í utandagskrárumræðu um atvinnuástandið við Mývatn. Þar lýsti hann yfir mikilli trú á iðnrh. og bar mikla von til starfa hæstv. iðnrh. Það vantaði bara eitt inn í til að þrenningunni yrði fullnægt. Það kom fram í hinu ágæta andsvari hv. þm. þegar hann sýndi okkur þingmönnum Samf. alveg sérstakan kærleika. Að því leyti kom þetta ekki á óvart og ber auðvitað að þakka umhyggjuna þrátt fyrir að allt hafi þetta verið á misskilningi byggt.

Þessum atriðum vildi ég helst koma að. En það er nauðsynlegt, vegna þess sem hér hefur einnig komið fram og verið ítrekað, m.a. af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, að nefndin stendur einhuga að þessu nál. Ég held að rétt sé að nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega verkstjórn hv. þm. í nefndinni. Það hefur verið býsna gott vinnulag á nefndinni og nefndin hefur verið afskaplega samstiga í öllum störfum. Ég tel það mjög til fyrirmyndar og að þannig nái menn bestum árangri. Ég held að við höfum náð eins langt með þetta mál og kostur var innan þess tímaramma sem okkur var settur. Víða eru samt miklar flækjur sem við hefðum trúlega þurft að eyða í meiri tíma og hugsanlega hefðum við þá getað komist að betri niðurstöðu. Álit okkar er hins vegar lagt fram með opnum huga. Við munum ásamt ráðuneytinu fylgjast með framkvæmdinni og grípa til breytinga ef þurfa þykir.

Því miður er það ekki þannig í öllum nefndum þingsins að unnið sé á þennan hátt, þ.e. leitað eftir því að sem allra best samstaða náist og sameiginleg niðurstaða í stórum og flóknum málum. Ég tel vinnulag samgn. vera mjög til fyrirmyndar og sé ástæðu til þess að þakka fyrir það og vek á því sérstaka athygli.

Þrátt fyrir að hinn mikli kostnaður sem við höfum rætt töluvert mikið um í dag muni leggjast á mun sá kostnaður væntanlega ekki breyta mjög samkeppnisstöðu okkar, t.d. gagnvart öðrum þjóðum. Álíka kostnaður leggst auðvitað alls staðar á og þar sitja allir við sama borð þótt væntanlega sé stofnkostnaður okkar til að byrja með töluvert meiri en víðast hvar annars staðar. Við höfum búið við miklu opnari og frjálslegri hafnir en víðast hvar erlendis þar sem menn hafa þegar tekið upp þær lokanir sem við þurfum nú að taka upp.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að lengja umræðuna mikið meira. Að lokum vil ég þó minnast örlítið á þá miklu grein, 9. gr. frv. Sú grein fjallar um gjöldin, þ.e. hvernig á að ná til baka kostnaðinum til hafnanna, Siglingastofnunar og annarra aðila sem bera hann. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þar eru gjöldin tíunduð og gjaldflokkarnir eru sex þegar allt er talið. Sá kostnaður sem hv. þm. nefndi hins vegar tel ég að sé afar varlega áætlaður. Hv. þm. nefndi töluna 300 millj. kr. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur hins vegar talað um að þetta gæti náð milljarði þegar allt er talið, (GAK: Með stofnkostnaði.) með stofnkostnaði og öllu slíku. Ég hugsa að sú áætlun sé kannski í hærri kantinum og hin í þeim lægri. Ég tel að einhvers staðar þar á milli sé upphæðin.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni var í nefndinni reynt að velta þessu upp og ná utan um þennan kostnað. En það er ógerningur á þessu stigi að átta sig á því hver hann verður endanlega. Það er enn ein ástæða þess að við þurfum að fylgjast með þessu og átta okkur á því hvort tilgangurinn með þeirri leið sem valin hefur verið náist, þ.e. að reyna að halda kostnaði í lágmarki. Tíminn leiðir í ljós hvort gera þurfi einhverjar breytingar á lögunum, þess vegna á hausti komanda eða að ári liðnu, sem væri kannski eðlilegri tími að gefa sér til að sjá hvernig þessu máli reiðir af.

Herra forseti. Ég hef þar með komið að þeim athugasemdum sem ég taldi nauðsynlegt að koma að við þessa umræðu. Ég ítreka að samstarfið í nefndinni hefur verið afskaplega gott og við gerum ráð fyrir því að þurfa að fylgjast með framkvæmd laganna og hugsanlega endurskoða einhver ákvæði þeirra þegar í ljós kemur hvernig til hefur tekist.