Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:58:45 (7602)

2004-05-04 15:58:45# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég má til með að koma með örstutta athugasemd um þetta frv.

Við á Vesturlöndum dáum lýðræðið, frelsi einstaklingsins, frjáls viðskipti, persónulegt frelsi o.s.frv. Þeir glæpamenn sem flugu á turnana tvo 11. september --- ég vil ekki kalla þá hermenn eða segja að þeir hafi verið í hernaði, ég vil einfaldlega kalla þá glæpamenn --- voru á móti þessu öllu. Þeir voru á móti lýðræði, á móti frelsi einstaklingsins, á móti persónulegu frelsi og þeir voru á móti alþjóðaviðskiptum. Þeim virðist þó vera að takast það sem þeir ætluðu sér. Hægt og rólega er þeim alls staðar að takast það. Þetta er einn anginn af því.

Hér er verið að skerða frelsi Íslendinga til að ganga niður að höfn á sunnudögum. Hér er lagt út í gífurlegan kostnað. Í þessu frv. felst helsi á alþjóðaviðskipti. Þetta er mikið inngrip inn í persónulegt frelsi einstaklinga, bæði til að flytja vöru og selja vöru, til að umgangast landið sitt o.s.frv. Þessum glæpamönnum er því miður að takast að ná markmiðum sínum. Mér finnst að menn þurfi að vera vakandi yfir því og reyna eins og mögulegt er að vinna gegn því að þeim takist þetta ætlunarverk sitt til fullnustu.

Mörg okkar hafa ferðast til útlanda og kynnst þar litlum öryggiseyjum. Það eru virkilegar öryggiseyjar sem eru víggirtar, með vörðum og tvöföldum hliðum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hef kynnst því í Bandaríkjunum þar sem menn kaupa sér öryggi innan slíkra víggirðinga. Þetta eru orðin einhvers konar öfug gettó. Upp á þetta horfum við mjög víða, að ríkið getur í raun ekki lengur ábyrgst öryggi borgaranna. Það er mjög alvarleg þróun. Þetta er ákveðin veiking ríkisins og það guggnar gagnvart öllum glæpalýðnum, hvort sem það eru litlir glæpamenn, af götunum, eiturlyfjaglæpamenn, eða þá stórglæpamenn eins og þeir sem réðust á turnana tvo.

Ég vildi í þessu sambandi, af því að menn hafa rætt um kostnað, kostnaðarskiptingu, gjöld og óhjákvæmilegan kostnað og ekki óhjákvæmilegan og sparnað ríkisins, koma inn á það að þetta er í raun afleiðingin af 11. september og það sem glæpamennirnir vildu.