Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 16:13:08 (7605)

2004-05-04 16:13:08# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, að ef viðkomandi höfn er ekki með hafnsögubát þá má ekki innheimta það gjald, eins og hér kemur fram. En þá standa eftir 14 gjöld.

Það sem ég var að vekja athygli á er þetta ótrúlega hugmyndaflug samgrn., að skipta gjöldunum svo mikið niður sem raun ber vitni og segja t.d. um vörugjöld af vörum að það gjald skuli standa undir kostnaði við aðstöðu við bryggju og hafnarbakka. Skipagjöldin skulu hins vegar standa undir kostnaði við að reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn. Ég man ekki hvernig það endaði en þegar málið kom til meðferðar til að byrja með, þótt ég sjái ekki í fljóti bragði hvort það er enn þá hér inni, átti að vera eitt gjaldið fyrir ytri hafnsögumannvirki.

Ég er einfaldlega að tala um, herra forseti, að orðið hefur til mikið kraðak og haugur af gjöldum sem eiga að mynda þessa tekjustofna hafna.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði, að vandi hafna þar sem afli er að dragast saman er enn þá meiri þar sem afli færist frá höfnum. Nú er farið að keyra afla milli landshluta þannig að fjölmargar hafnir tapa miklu meiri tekjum heldur en ætlað var í því reiknilíkani sem við unnum m.a. með í hv. samgn., ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson á síðasta kjörtímabili. Ástandið á eftir að verða enn þá verra hjá sumum höfnum með samdrætti á afla. Tökum nýlegt dæmi. Þegar 150--160 þús. tonn af loðnu veiðast ekki á síðustu vertíð vegna axarskafta bæði Hafrannsóknastofnunar og sjútvrn., þá kemur það illa við þessar hafnir. Sparnaðurinn er ekki endilega í hlutfalli við það.