Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 16:19:59 (7608)

2004-05-04 16:19:59# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Við tökum nú aftur til við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Það tókst ekki í fyrri viku að klára þessa umræðu. Þess vegna kemur hún hér aftur. Það voru einhver önnur mál veigameiri sem þurfti að fara í og þessu máli var frestað á meðan. Hér síðar á dagskránni kemur einnig til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33 frá 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum. Það er svolítið erfitt annað en tala um þessi mál nánast á sama tíma þar sem þau eru samkynja eða sama eðlis. Hér er um að ræða frumvarp til laga um að fella niður tvö gjöld sem útgerðin hefur greitt til ríkisins, annars vegar gjald í Þróunarsjóð og hins vegar svokallað veiðieftirlitsgjald. Ég mun þó reyna eins og efni eru til og hægt er í þessari ræðu minni að fjalla eingöngu um frumvarpið til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Í sjálfu sér liggur ekki mikið annað fyrir en að fella niður þessi tvö gjöld eftir að búið var að samþykkja hið svokallaða veiðigjald eða auðlindagjald eins og sumir hafa kallað það við breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og ágreiningur er kannski ekki um að full nauðsyn sé á því að fella þau niður eftir að búið var að festa í lög annað gjald í staðinn.

Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans þá hefur okkur ekki tekist í sjávarútvegsnefnd, þrátt fyrir ítarlegar óskir þar um, að fá upplýsingar um hver upphæð þessa nýja veiðigjalds gæti orðið sem kæmi í stað þeirra fjármuna sem ekki skila sér í ríkissjóð af gjaldi í Þróunarsjóð. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra gerði við fyrstu umræðu málanna í þinginu því engin skil hvaða fjárhæðir gætu komið í ríkissjóð í formi veiðigjalds í stað þeirra gjalda sem nú á að leggja af. Ekki tókst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minni hlutans við meðferð málsins í sjávarútvegsnefnd að fá fram upplýsingar um það atriði.

Nefndarmenn fengu því engar upplýsingar um hvaða áhrif glataðar tekjur vegna Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og af veiðieftirlitsgjaldi hafa á heildargreiðslur sjávarútvegsins vegna þjónustu hins opinbera og þar með afkomu ríkissjóðs.``

Í umræðunni sem varð um þetta atriði hér í fyrri viku sagði formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, að ekki væri í raun hægt að reikna hvert þetta gjald væri á þessari stundu og ekki væri heldur farið að reyna að gera sér nokkra grein fyrir hvert þetta gjald gæti hugsanlega verið miðað við þó þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Hv. þm. sagði þó að þetta gjald yrði hærra en þau gjöld sem lögð yrðu niður. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig hv. þm. geti haldið því fram að það gjald sem kemur í staðinn verði hærra án þess að menn séu byrjaðir að reikna. Eðlilegt er að spurt sé á hverju þessi skoðun hans byggir því hún hlýtur að byggja á einhvers konar útreikningum eða einhverju því sem menn hafa reynt að gera sér grein fyrir hvernig þetta gjald gæti orðið.

Það er í raun alveg ótrúlegt og ég satt að segja trúi því ekki, herra forseti, nú þegar viðmiðunartímabilið er liðið sem nota á til útreiknings á þessu nýja veiðigjaldi að embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu hafi ekki reynt með einhverjum hætti að gera sér grein fyrir því hver heildarfjárhæð þessa nýja gjalds verði. Ég verð að segja eins og er að ef það er staðreynd þá skil ég ekki þau vinnubrögð sem þar tíðkast vegna þess að þeim hlýtur að bera skylda til þess að reyna að gera sér grein fyrir hvaða áhrif breytingar á lögum hafa á fjárhagsatriði sem ráðuneytið og undirstofnanir þess snerta.

Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram hvert þróunarsjóðsgjaldið sem hér er verið að tala um að fella niður er. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarpið um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að lögum má gera ráð fyrir að innheimta á þróunarsjóðsgjaldi á aflamark lækki um 510 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 650 millj. kr. innheimtu fyrir árið 2004. Einnig er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins vegna þróunarsjóðsgjalds á skip lækki um 2 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 92 millj. kr. innheimtu. Verði frumvarpið um afnám veiðieftirlitsgjaldsins að lögum lækka tekjur ríkissjóðs af veiðieftirlitsgjaldi um 270 millj. kr. frá áætlun fjárlaga sem gerði ráð fyrir 335 millj. kr. fyrir árið 2004.

Heildarniðurstaða niðurfelldra gjalda sjávarútvegsins til ríkissjóðs vegna þessara tveggja frumvarpa er þess vegna 782 millj. kr. á árinu 2004 en engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur af veiðigjaldi fyrir þetta ár.``

Þetta nýja veiðigjald kemur í staðinn fyrir þessi tvö gjöld. Það byggir á lögum um stjórn fiskveiða sem nú gilda. Þar segir í 20. gr., með leyfi forseta:

,,Leggja skal á veiðigjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli þessara laga, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða í samræmi við 22. gr.

Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um útreikning, álagningu og innheimtu veiðigjalds á grundvelli þessa kafla.``

Þarna er grein sem við hljótum að velta aðeins fyrir okkur núna þegar komið er að því að reikna út hið nýja veiðigjald, það er að ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um útreikning, álagningu og innheimtu veiðigjalds á grundvelli þessa kafla.

Síðan segir í 21. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Ráðherra skal ákvarða veiðigjald komandi fiskveiðiárs samkvæmt þessari grein fyrir 15. júlí ár hvert. Til grundvallar veiðigjaldinu skal leggja aflaverðmæti miðað við tímabil sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Frá aflaverðmætinu skal draga reiknaðan olíukostnað, reiknaðan annan rekstrarkostnað og reiknaðan launakostnað á sama tímabili.``

Eins og fram kemur í þessari tilvitnuðu grein er því viðmiðunartímabili sem þarna er talað um lokið. Það hófst 1. maí á liðnu ári og lauk núna 30. apríl á þessu ári. Viðmiðunartímabilinu er því lokið og spurning er hvort ekki sé komið að því að hægt verði að reikna út hvert þetta nýja veiðigjald verður í heild.

Síðan segir áfram í 21 gr. laganna um stjórn fiskveiða, með leyfi forseta:

,,Fiskistofa skal reikna aflaverðmæti fyrir tegundir sem sæta ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr., og miða við tímabil 1. mgr.

Frá aflaverðmæti skv. 2. mgr. skal draga eftirfarandi liði:

a. Reiknaðan olíukostnað að fjárhæð 6.218 millj. kr. sem taki breytingum miðað við meðaltal á skráðu verði á gasolíu á Rotterdammarkaði frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals tímabils 1. mgr.

b. Reiknaðan annan rekstrarkostnað að fjárhæð 17.568 millj. kr. sem taki breytingum miðað við vísitölu neysluverðs frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals tímabils 1. mgr.

c. Reiknaðan launakostnað sem miðast við 39,8% af aflaverðmæti, sbr. 1. mgr.

Aflaverðmæti skv. 2. mgr. að frádregnum liðum 3. mgr. skal skipt jafnt á aflamagn sama tímabils umreiknað til þorskígilda miðað við þorskígildisstuðla næsta fiskveiðiárs, sbr. 19. gr. Veiðigjald komandi fiskveiðiárs skal síðan reiknað sem 9,5% af niðurstöðutölu 1. málsl. í krónum á þorskígildiskílógramm.``

Seinna í sömu lögum er ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að þetta gjald verði ekki 9,5%, heldur 6% á árinu 2004.

[16:30]

Í ljósi þess sem ég hef hér lesið finnst mér eðlilegt, virðulegi forseti, að spyrja hv. formann sjútvn. þar sem þessu viðmiðunartímabili er nú lokið: Hvert er það aflaverðmæti sem talað er um að þurfi að reikna út miðað við tímabilið sem leggja á til viðmiðunar? Ég veit að það er nýliðið en þó hljóta einhverjar skýrslur að liggja fyrir því það er yfirleitt fylgst mjög vel með lönduðum afla á hverju tímabili, hver landar hverju og hvert verðmæti þess afla er. Reyndar eru flestir sem í slíkum fiskviðskiptum standa í svokölluðum flýtiskilum í virðisaukaskatti þannig að aflaverðmæti hjá flestum ætti að liggja fyrir fyrir tímabilið þannig að það ætti að vera hægt að fá upplýsingar um hvert það heildaraflaverðmæti er frá 1. maí á sl. ári til 30. apríl á þessu ári.

Í öðru lagi á að reikna viðmiðunarkostnað olíu, eins og sagði hér í greininni, og miða við 6.218 millj. kr. Þetta verð átti að breytast miðað við skráð verð á markaði á olíu í Rotterdam eins og greinin tiltekur, og því spyr ég: Hver er þessi upphæð nú í lok viðmiðunartímabilsins? Það hlýtur að vera hægt að reikna hver þessi upphæð er nú. Hún var 6.218 millj. þegar lögin voru sett, það átti að miða hana við skráð meðalverð á markaði á olíu í Rotterdam. Menn hljóta að vita hvert það er í dag og hver sú tala verður nú sem draga á frá aflaverðmætinu.

Í þriðja lagi var það annar rekstrarkostnaður. Í frv. um stjórn fiskveiða var gert ráð fyrir að hann væri 17.568 millj. kr. og hann átti að breytast með vísitölu neysluverðs. Búið er að gefa út vísitölu neysluverðs þannig að það hlýtur að vera tiltölulega einfalt að reikna út hver þessi annar rekstrarkostnaður á að vera sem notaður er í þá reikniformúlu sem nota á til að reikna út nýja veiðigjaldið.

Að síðustu var það launakostnaðurinn, 39,8% af aflaverðmætinu. Ef aflaverðmætið liggur fyrir eða styttist í að það liggi fyrir ætti einnig að vera auðvelt að reikna þetta út.

Ef hægt er að fá svör, hæstv. forseti, við þessum spurningum er hægt að reikna út heildarveiðigjaldið, hvert það á að vera fyrir alla sem fá úthlutað aflaheimildum en kannski erfiðara að fara að skipta því niður á þorskígildiskílógrömm þar sem ekki liggur fyrir hvað þau verða mörg á komandi fiskveiðiári.

Niðurstaðan úr dæminu þegar allar þessar upplýsingar liggja fyrir, 6% af því verður þetta nýja veiðigjald, 6% af þeirri framlegð, getum við kallað það, sem eftir verður þegar búið er að taka aflaverðmætið, olíukostnaðinn, annan rekstrarkostnað og launakostnað frá þessari upphæð.

Hv. formaður sjútvn. sagði sjálfur í umræðum í síðustu viku að hann hefði ítrekað reynt að fá upplýsingar hjá embættismönnum sjútvrn. um hvert veiðigjaldið yrði og ber að þakka það að hv. formaður reyni að fá þær upplýsingar sem um er beðið. Hann bar til okkar þau svör að það mætti búast við að heildarupphæð veiðigjaldsins lægi fyrir í kringum 15. maí. Nú vitum við að þingstörf hafa dregist og lítur vel út fyrir að þau dragist nokkuð í viðbót og því sýnist mér að það hljóti að koma til með að liggja fyrir hvert heildargjaldið verður, raunverulegt heildarveiðigjald, áður en til þess kemur að við hættum þingfundum fyrir sumarleyfi. Við höfum viljað bíða, eins og fram kemur í nál. okkar í minni hlutanum, eftir því að taka málið til 3. umr. þar til fyrir liggur hvaða gjöld koma í staðinn fyrir þau gjöld sem falla niður.

Síðan getur maður, virðulegi forseti, náttúrlega leikið sér bæði með ýmsar tölur og ýmsar hugmyndir í þessu. Eins og ég las upp úr lögunum um stjórn fiskveiða áðan kemur fram að ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um útreikning og álagningu og innheimtu á veiðigjaldinu, og því hlýtur maður að velta fyrir sér hlutum eins og t.d. línuívilnun. Talað er um að leggja ákveðið gjald á hvert þorskígildiskíló sem gefið er út í kvóta. Reyndar er einnig talað um að það megi leggja þetta gjald á hvert landað kíló þar sem ekki er um það að ræða að verið sé að úthluta aflaheimildum, eins og hjá dagabátum, og því veltir maður fyrir sér hvaða hugmyndir eru uppi t.d. með línuívilnun þar sem hvert úthlutað kíló í kvóta er ekki það sama og kílóin sem viðkomandi útgerðir koma til með að landa. Hv. formaður sjútvn. studdi jú línuívilnunina dyggilega á þingi og maður veltir því fyrir sér hvernig hann vill fara með þann afla sem landað verður í gegnum þessa ívilnun, hvaða gjald menn koma til með að greiða þar. Koma menn til með að greiða gjald af þeim aflaheimildum sem þeim er úthlutað eða af þeim landaða viðbótarafla sem landað verður í formi þessarar ívilnunar? Ef eingöngu er greitt gjald af úthlutuðum aflaheimildum og menn landa síðan mun meiri afla en aflaheimildir segja til um þá eru menn jú að greiða lægra veiðigjald á kíló í gegnum línuívilnun en í gegnum önnur form útgerðar.

Að minnsta kosti hljótum við að geta sagt, virðulegi forseti, að miðað við þær upplýsingar sem gefnar hafa verið í þingsalnum hefðu upplýsingar um veiðigjaldið sem tekur við af gjaldinu í Þróunarsjóð og veiðieftirlitsgjaldinu að 11/12 hlutum getað legið fyrir hér 15. apríl. Þá hefðum við getað séð með nokkurri vissu hvort nýja gjaldið sem leggja á á hrykki fyrir þeim niðurfelldu gjöldum sem við erum að ræða.

Veiðigjaldið sem verið er að tala um að komi í staðinn fyrir þróunarsjóðsgjaldið og veiðieftirlitsgjaldið er niðurstaða sem hér varð og hefur verið byggð á vinnu svokallaðrar auðlindanefndar. Það hefur náttúrlega verið farið yfir það fyrr í umræðunni að það er í raun ekki nein sátt um þá leið á milli þeirra flokka sem eru á Alþingi og það er ekki einu sinni sátt um þá leið innan stjórnarflokkanna.

Það er of mikið sagt, eins og við heyrðum klingja í kosningabaráttunni sí og æ, að með því að taka upp veiðigjald, sem sumir hafa viljað kalla auðlindagjald, væri loks komin hin langþráða og mikla sátt sem menn voru að leita að og hafa alltaf verið að leita að í sjávarútvegi. Þeir sem halda því fram að upptakan á þessu nýja veiðigjaldi sé í raun búin að ná fram einhverri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið lifa í einhverjum öðrum raunveruleika en við hin. Skoðum aðeins hvað sagt var og ritað þegar lagt var fram á Alþingi frv. um það veiðigjald.

Það hefur verið í tísku undanfarna daga, virðulegi forseti, að lesa hér upp úr gömlum skjölum og ég held að það sé allt í lagi að halda því eitthvað áfram. Ég velti fyrir mér hverjar voru skýringar manna við þetta nýja veiðigjald þegar lagt var fram frv. á Alþingi um að breyta lögum um stjórn fiskveiða þannig að þetta gjald yrði tekið upp. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr athugasemdum við það lagafrv. Þar segir:

,,Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 1/1999, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd hinn 28. september 1999 sem skyldi endurskoða fiskveiðistjórnarlögin. Í skipunarbréfi nefndarinnar komu fram þau markmið er vinna skyldi að með endurskoðuninni og tillögum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Í skipunarbréfinu segir:

,,Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu.`` --- Við getum síðan tekið hér langa tölu og deilu um hvort það hafi tekist hjá hinni svokölluðu auðlindanefnd eða ekki, en ég held áfram að vitna í athugasemdir við lagafrv., með leyfi forseta:

,,Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar né heldur raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.``

Síðastliðið haust skilaði nefndin skýrslu sinni til ráðherra. Meginumfjöllunarefni nefndarinnar var hvort leggja skyldi auðlindagjald á sjávarútveginn og í hvaða formi slíkt gjald ætti þá að verða. Ræddi nefndin nokkra kosti við álagningu greiðslna fyrir afnotarétt af nytjastofnum sjávar. Þær leiðir sem auðlindanefnd taldi koma til greina og kenndar eru við veiðigjald og fyrningu voru ræddar ítarlega, en einnig var skoðuð sú leið sem kennd hefur verið við samninga og lýst er í skýrslu nefndarinnar.

Meiri hlutinn taldi og mikilvægt að deilur um eignarhald og afnotarétt á nytjastofnum sjávar yrðu settar niður og til þess skyldi farin sú leið sem auðlindanefnd lagði til, þ.e. að greiðsla kæmi fyrir afnotaréttinn með hliðsjón af afkomu fiskveiða. Þessi niðurstaða meiri hlutans byggðist þó á því að sjávarútvegurinn fengi aukið svigrúm og yrði gert kleift að treysta stöðu sína, greiða niður skuldir og auka hagnað. Til að svo megi verða skiptir mestu að frjálsræði verði aukið í sjávarútvegi og langtímastefnumótun og festa í lagaumhverfi og framkvæmd laga á sviði greinarinnar verði haft í öndvegi.

Við útfærslu tillagna sinna um veiðigjald lagði meiri hlutinn til að veiðigjaldið yrði tvískipt; annars vegar fastur hluti sem tæki mið af kostnaði ríkisins vegna stjórnunar fiskveiða og hins vegar breytilegur hluti sem tengdist afkomu í greininni. Á móti gjaldtökunni lagði nefndin til að niður féllu ýmis gjöld sem útgerðin ber nú enda taldi nefndin afkomu í sjávarútveginum ekki gefa tilefni til frekari sérstakrar gjaldtöku og því bæri einnig að hafa rúman aðlögunartíma að veiðigjaldinu.

Í frv. eru tillögur nefndarinnar um veiðigjald útfærðar, þó þannig að um eitt gjald er að ræða sem bæði er magn- og afkomutengt.``

Þarna kemur fram með skýrum hætti, virðulegi forseti, að auðlindanefndin svokölluð lagði til að það yrði farið í þetta veiðigjald en hún lagði jafnframt til að gjaldið yrði tvískipt. Hún lagði til að annars vegar yrði innheimt gjald sem væri föst krónutala af útgerðinni og síðan yrði annar hluti gjaldsins tengdur afkomu útgerðarinnar á hverjum tíma.

Hér segir í sömu athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Í skýrslu endurskoðunarnefndar leggur meiri hluti hennar til að gjaldið verði tvískipt, annars vegar breytilegur hluti sem tengist afkomu greinarinnar og hins vegar fastur hluti sem miðist við kostnað ríkisins vegna stjórnar fiskveiða. Í því sambandi leggur nefndin til að við ákvörðun gjaldsins verði horft til árlegs kostnaðar vegna þess hluta Fiskistofu sem snýr að fiskveiðum (um 400 millj. kr.), rekstrar Hafrannsóknastofnunarinnar, um 940 millj. kr., og afskrifta og fyrirsjáanlegs kostnaðar við fjárfestingar í hafrannsóknarskipum (150--200 millj. kr.). Samtals nemur þessi kostnaður um 1.490--1.540 millj. kr. á ári.``

Hér var auðlindanefndin að leggja til, og ég held að það hafi verið ákaflega skynsamlegt fyrst menn á annað borð voru að tala um að leggja á veiðigjald, að hluti þess yrði fastur. Að það væri ákveðinn hluti af veiðigjaldinu sem kæmi í staðinn fyrir þau gjöld sem við nú ætlum að fara að fella niður sem menn vissu nákvæmlega fyrir fram, burt séð frá því hver afkoman væri á hverjum tíma, að útgerðin í landinu mundi greiða, enda væri sá hluti eingöngu miðaður við þann kostnað sem ríkið bæri beint af rekstri Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og árlegum kostnaði við að fjárfesta í hafrannsóknarskipi, 1.490--1.540 millj. kr. Síðan átti að bæta við þetta afkomutengdu veiðigjaldi.

Nú veit ég ekki hvort við fáum upplýsingar í þessari umræðu um hugsanlegar upphæðir veiðigjaldsins eins og það er reiknað út, byggt á þeim tilögum sem nú eru í gildi í lögum um stjórn fiskveiða, en miðað við hvernig útvegurinn hefur gengið á viðmiðunartímabilinu er ég ekki einu sinni viss um að heildargjaldið sem reiknað verður út frá þeirri reikniformúlu sem ég fór yfir áðan nái einu sinni þeim fasta hluta sem auðlindanefndin lagði til að skyldi þó verða algjört lágmark í þeim gjöldum sem kæmu í staðinn fyrir þau gjöld sem við fellum nú niður, verði þau frv. sem verið er að fara yfir í dag að lögum.

[16:45]

Í athugasemdum með áðurnefndu frv. segir, með leyfi forseta:

,,Til að einfalda sem mest útreikning, álagningu og innheimtu veiðigjaldsins var ákveðið að leggja til í frumvarpi þessu að veiðigjald yrði lagt á útgerðina í einu gjaldi og veiðigjaldið yrði ekki tvískipt ...``

Þetta var niðurstaðan hjá Alþingi þegar lögunum um stjórn fiskveiða var síðast breytt og þetta veiðigjald kom inn, að einfaldara væri að miða það eingöngu við afkomuna fremur en að vera með fast gjald.

Nú þykir mér skörin vera að færast upp í bekkinn. Ég skil ekki hvernig það getur verið einfaldara að vera eingöngu með breytilegt gjald, sem veltur á mörgum breytilegum forsendum, en ákveðna fjárhæð sem alltaf yrði a.m.k. greidd í veiðigjald.

Fjmrn. lagði mat á þessar tillögur þegar þær lágu fyrir í frumvarpsformi og sagði í sínu áliti, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarpið óbreytt að lögum og ekki gerðar breytingar á tekjustofnum Fiskistofu og Þróunarsjóðs sjávarútvegsins má gera ráð fyrir að gjald fyrir veiðiheimildir hækki í áföngum til ársins 2009, en þá geti gjaldið skilað ríkissjóði um 1,8--2 milljörðum kr. í tekjur á verðlagi ársins í ár.``

Þarna var því spáð að miðað við þær reglur sem nú gilda gæti þetta nýja veiðigjald orðið 1,8--2 milljarðar kr. á árinu 2009. Fjmrn. reyndi líka að meta hvert gjaldið yrði á árinu 2004.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Miðað við frumvarpið eins og það stendur eitt og sér verða tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi 1,1--1,2 milljarðar kr. árið 2004 og hækka í áföngum og verða 1,8--2,1 milljarður kr. árið 2009. Á móti lækka tekjuskattar á útgerðarfyrirtæki um 18% af því sem tekjuskattsstofninn lækkar hjá þeim fyrirtækjum sem greiða tekjuskatt.``

Það hefur reynst okkur í þessari umræðu erfitt, eins og fram hefur komið, að draga fram einhverjar tölur. Þarna finnur maður þó einhverja spá, þó gömul sé, frá fjmrn. um að þetta nýja veiðigjald gæti hugsanlega skilað 1,1--1,2 milljörðum á árinu 2004. Ég efast um að embættismenn fjmrn. hafi á þeim tíma sem spáin var gerð vitað um þá niðursveiflu sem orðið hefur í sjávarútvegi. Mér er til efs að gjaldið geti náð þeim tölum sem þarna koma fram, 1,1--1,2 milljörðum kr. Auðvitað væri gott ef svo væri en rekstrarumhverfi sjávarútvegsins hefur breyst svo mikið á þessum viðmiðunartíma sem við erum að tala um að verði notaður, frá 1. maí á síðasta ári til 30. apríl á þessu ári, að ég efast um að nokkrir embættismenn á þeim tíma sem þessi spá var gerð hafi gert sér grein fyrir að niðursveiflan yrði þetta mikil.

Hvað verður um Þróunarsjóð sjávarútvegsins samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir?

Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt áætluðum efnahags- og rekstursreikningi Þróunarsjóðs fyrir árið 2003 var hrein eign sjóðsins um 318 millj. kr. í árslok 2003 og var það í fyrsta skipti frá sjóðsstofnun sem sjóðurinn sýnir jákvæðan höfuðstól. Gangi áætlanir Þróunarsjóðs fyrir árin 2003--2009 eftir má gera ráð fyrir að hrein eign sjóðsins verði um 370 millj. kr. í árslok 2009 er starfstíma hans lýkur samkvæmt lögunum.``

Þarna kemur fram í athugasemdum við lagafrv. að samkvæmt áætluðum efnahags- og rekstursreikningi Þróunarsjóðs í lok árs 2003 sé hrein eign 318 millj. kr. og hrein eign gæti orðið 370 millj. kr. þegar leggja á sjóðinn niður í árslok 2009.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins, hvaða fyrirbæri er þetta og hvernig stendur á því að í hann hafa verið lagðar háar fjárhæðir? Hvernig varð hann til og hvert var hlutverk hans?

Í lögum um Þróunarsjóð segir, með leyfi forseta:

,,Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr., fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr., innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingadeildar skv. 13. gr. og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.``

Í 1. gr. laganna kemur skýrt fram hvert hlutverk þessa sjóðs er, sem við ætlum nú í framhaldi af þessu frv., verði það að lögum, að leggja niður. Ég held að allir sem einhvern þátt tóku í stjórnmálum eða sjávarútvegi á þeim árum sem Þróunarsjóðurinn var stofnaður muni það ástand sem þá var og í hvaða tilgangi sjóðurinn var settur á laggirnar. Það urðu ansi miklar deilur um það í þjóðfélaginu hvort um enn eina sértæku aðgerðina væri að ræða fyrir ákveðna landshluta eða fyrir ákveðinn iðnað. Ég held þó að flestir hafi gert sér grein fyrir því á þeim tíma að það var nauðsynlegt að koma útveginum til hjálpar og það var ákveðið að gera það með því að stofna þennan Þróunarsjóð.

Sjóðurinn tók á sínum tíma við öllum eignum og skuldbindingum fleiri sjóða. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

,,Þróunarsjóður tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins ... eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja ... Yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda við gildistöku laga þessara að frádregnum 950 millj. kr. endurlánum ríkissjóðs til atvinnutryggingardeildar sem ríkissjóður tekur að sér að greiða. Jafnframt ábyrgist Þróunarsjóður gagnvart ríkissjóði það sem á kann að falla vegna ríkisábyrgðar á verðbættu nafnvirði A-hlutdeildarskírteina hlutafjárdeildar.``

Þeir sem þekktu rekstur þessa sjóðs muna það að hann gat keypt hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum, svokölluð A-hlutabréf og B-hlutabréf. Þarna er verið að tala um A-hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar Byggðastofnunar. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Halda skal fjárreiðum framangreindra sjóða aðskildum í bókhaldi sjóðsins. Þá skal ríkissjóður leggja sjóðnum til að láni jafnvirði 4 þús. millj. kr. á árunum 1994 og 1995. Skal hver hluti lánsins afborgunarlaus fyrstu tvö árin en endurgreiðast síðan með jöfnum árlegum afborgunum þannig að þau verði að fullu greidd árið 2005.``

Þessi lán sem ríkissjóður lagði sjóðnum til, 4 þús. millj. kr. á árunum 1994 og 1995, eiga því að endurgreiðast að fullu á næsta ári.

Það kemur einnig fram í lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að Þróunarsjóðurinn er í eigu ríkisins. Af hverju tel ég að taka þurfi það fram? Jú, kannski vegna þess að í störfum sjútvn. var óskað umsagnar frá hagsmunaaðilum, eins og við yfirleitt gerum þegar við fjöllum um mál í nefndum. Okkur barst m.a. umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna þar sem fram kemur að Landssamband íslenskra útvegsmanna leggur til að sjóðurinn verði strax gerður upp þar sem hann eigi nú fyrir skuldum og því sem umfram verði verði skilað til þeirra útgerðarmanna sem greitt hafa í sjóðinn á þessu ári.

Þegar ég sá þetta í umsögn LÍÚ fór ég að velta fyrir mér hvort það gæti verið að ekki væri kveðið á um hvernig ætti að fara með eigur sjóðsins þegar kæmi að því að leggja hann niður eða gildistími laganna um hann rynni út. Sem betur fer fann ég, þegar ég fór að leita, að í lögunum stendur að þau gildi til 31. des. árið 2009 ,,og skulu eignir sjóðsins þá renna til Hafrannsóknastofnunarinnar og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.`` Það liggur því alveg ljóst fyrir og hefur legið fyrir ljóst frá upphafi að þeir sem greiða í þennan sjóð hafa ekki neinn eignarrétt á því fé sem þar kemur inn, jafnvel þótt sjóðurinn komi til með að eiga eitthvað umfram skuldbindingar sínar. Jafnframt var ljóst af umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna að þeir ágirnast það fé sem reikna má með að verði til í sjóðnum.

Í frv. kemur fram að áætlaður efnahags- og rekstrarreikningur fyrir árið 2003 segi að hrein eign geti orðið um 318 millj. kr. Þar sem við erum komin fram í maí á árinu 2004 datt mér í hug í dag að leita mér upplýsinga um það hvort ekki lægi fyrir ársreikningur Þróunarsjóðs sjávarútvegsins fyrir síðasta ár þannig að maður gæti séð hvort þessi áætlun um 318 millj. kr. stæðist.

Ég gat ekki orðið mér úti um ársreikning fyrir síðasta ár en ég gat fengið ársreikning fyrir árið 2002, sem ég gerði til að gera mér grein fyrir því í tölum hvers konar sjóður Þróunarsjóður sjávarútvegsins er. Ég hef farið yfir lagalegt hlutverk hans en fljótt á litið gerir maður sér ekki alveg grein fyrir stærð sjóðsins í tölum og hollt er að rifja það upp núna þegar fyrir liggur að þessi sjóður verður niður lagður.

Í ársreikningi ársins 2002 kemur fram að samkvæmt niðurstöðum rekstrarreiknings varð hagnaður á rekstri sjóðsins um 1.108 millj. kr. Hann var mun meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir og var það aðallega vegna hagstæðrar gengisþróunar á því ári. Í lok ársins 2002 var eigið fé sjóðsins neikvætt um 395 millj. kr. Sé eigið fé í lok árs 2003 orðið jákvætt um 318 millj. kr. er alveg ljóst að það hefur verið ágætisafgangur af sjóðnum á árinu 2003. Staðan hefur þá breyst út því að vera neikvætt eigið fé upp á 395 millj. kr. í að vera jákvætt upp á 318 millj. og varla getur munað miklu í áætluninni sem lögð er til grundvallar í lagafrv.

Hvernig hefur þessi sjóður þróast frá því að hann var settur á laggirnar? Eignir sjóðsins við lok árs 1994 voru 7.128 millj. kr. Hann skuldaði þá 10.108 millj. kr. þannig að neikvætt eigið fé var 2.980 millj. kr. Síðan hafa eignirnar smám saman verið að minnka og skuldirnar líka minnkað. Staðan nú í lok árs 2002 var sú að eignir voru upp á 3.679 millj. kr. en skuldir upp á 4.074 millj. kr. og neikvætt eigið fé upp á 395 millj. kr.

Þetta er enginn dvergur, þessi sjóður sem við erum að tala um. Í honum eru miklar eignir en jafnframt hvíla enn þá á honum miklar skuldir. Tekjurnar sem sjóðurinn hefur fengið frá ári til árs hafa verið að þróast og breytast. Árið 1996 var gjaldið á aflamark 478 millj. kr. Árið 2002 var það komið upp í 633 millj. kr.

Þróunarsjóðsgjald á fiskiskip var ekki neitt í upphafi, árið 1994 þegar sjóðurinn var settur á laggirnar, en árið 2002 var það komið í 101 millj. kr.

Í stjórn sjóðsins eru þrír valinkunnir menn. Segja mætti að hlutverk þessa sjóðs hafi ekki verið mikið á undanförnum árum annað en að taka á móti gjöldum og greiða niður skuldir. Hlutverkið var meira á árum áður, eins og flestir muna, þegar Þróunarsjóður fór um landið og keypti upp frystihús og fasteignir sem ekki nýttust lengur í sjávarútvegi. Hann keypti þær upp og reyndi síðan að selja aftur í einhvern annan farveg heldur en fiskvinnslu eða útgerð. Það hefur lítið verið um slíkar hreyfingar innan sjóðsins á undangengnum tveimur árum, aðallega hefur sjóðurinn, eins og ég sagði hér áðan, tekið við þessu gjaldi og greitt niður skuldir.

Það er vont að hafa ekki tölur ársins 2003 þegar menn velta þessum hlutum fyrir sér og hvernig gengið hefur hjá sjóðnum. Þó held ég að það sé nauðsynlegt umræðunni að við förum aðeins yfir umfangið eins og ég gerði áðan varðandi þennan sjóð á árinu 2002, sem eru síðustu endurskoðaðar upplýsingar sem við höfum um ársveltu og ársreikning þessa sjóðs. Þá voru vaxtatekjur rúmar 206 millj. kr. og gengishagnaðurinn 354 millj. kr. Þetta ár er því kannski ekki alveg marktækt að því leyti að þarna er sjóðurinn að hagnast verulega á hagstæðu gengi, sem ekki var á árinu 2001 því að þá tapaði hann 350 millj. kr. á genginu. Vaxtagjöld sjóðsins voru 164 millj. kr. Hreinn vaxtamunur, mismunur á milli þeirra vaxta sem sjóðurinn hafði í tekjur og vaxta sem hann greiddi í gjöld, var tæpar 400 millj. kr., þ.e. 397 millj. Þetta hefur sjóðurinn til síns reksturs en til viðbótar hefur hann tekjur, þróunarsjóðsgjaldið á aflamarkið og þróunarsjóðsgjaldið á fiskiskip og fasteignir. Af aflamarki fengust 632 millj. á árinu 2002 og af fiskiskipum 101 millj. kr. þannig að heildartekjur aðrar en vaxtatekjur voru 734 millj. En hreinar heildarrekstrartekjur sjóðsins á árinu 2002 voru 1.131 milljarður kr. Eins og ég segi erum við ekki að tala um neinn dverg. Það var lítið um framlög og styrki úr sjóðnum á þessu ári, eingöngu í kringum 10 millj. kr.

[17:00]

Á þessu ári tók sjóðurinn ný lán upp á 200 millj. kr. Hann borgaði af langtímaskuldum rétt tæpar 939 millj., tæpan milljarð, og borgaði af hlutdeildarskírteinum 13 millj. kr.

Við lok ársins 2002 átti sjóðurinn enn þá nokkrar fasteignir. Hann átti fjórar fasteignir sem voru Skeið 1 á Ísafirði, metið á 72 millj., Eyjaslóð 5 í Reykjavík á 56 millj., Bolafótur 15 í Njarðvík á 20 millj. og Straumnes, hraðfrystihús á Patreksfirði, metið á 1 millj. kr. Sjóðurinn á því enn fasteignir sem hann hefur tekið í úreldingu eins og hann gerði á sínum tíma sem metnar eru enn í dag upp á tæpar 150 millj. og hlýtur alltaf að vera spurning þegar farið er yfir slíkar eignir og mat á þeim hvaða mat er rétt á hverjum tíma.

Í lok ársins 2002 hafði sjóðurinn keypt samtals 62 krókabáta. Sjóðurinn keypti mikið af krókabátum á ákveðnu tímabili til að ná þeim út úr kerfinu. Hér segir í ársreikningi fyrir árið 2002 að markmiðið með kaupum þessum hafi verið að Þróunarsjóður gæti stutt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að hasla sér völl á erlendum fiskimiðum með því að leggja þeim til hlutafé eða báta eða selja þá báta úr landi til þess að stuðla að íslenskri útrás tækja og búnaðar. Í lok ársins hafði 59 bátum af þessum 62 verið ráðstafað en á árinu 2002 var engum bát ráðstafað.

Sjóðurinn var, eins og ég sagði, ekki í miklum rekstri og hefur ekki verið í miklum rekstri, a.m.k. ekki núna á síðustu tveimur árum, en eftir sem áður hefur hann hlutverk og þarna fara miklar tekjur í gegn, tekjur af þróunarsjóðsgjaldi, bæði af aflamarki, fiskiskipum og fasteignum. Ég tók eftir því í ársreikningi fyrir árið 2002 að þrátt fyrir að einungis þrír menn sitji í stjórn sjóðsins er þó verið að greiða í stjórnarlaun rétt um 3 millj. þannig að það kostar talsvert að reka sjóðinn og ég held að ég geti alveg tekið undir það með þeim aðila sem skrifaði umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna að það er í sjálfu sér enginn tilgangur í því að halda sjóðnum á lífi ef hægt er að leysa hann upp, en þá verður líka að passa upp á að þeir fjármunir sem í honum eru renni til þeirra hluta sem kveðið er á um í lögum.

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að formaður sjútvn. og hv. framsögumaður meiri hlutans í málinu, Guðjón Hjörleifsson, svari einhverjum af þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram og reyni að knýja á í sjútvrn. með svör því við komumst lítið áfram í umræðunni um niðurfellingu á þróunarsjóðsgjaldi og veiðieftirlitsgjaldi nema við vitum eitthvað um hvað kemur í staðinn. Ég treysti því að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, sem jafnframt er formaður sjútvn., passi upp á það fyrir okkur að við förum ekki í gegn með þessi frumvörp nema fyrir liggi staðfestar upplýsingar um hvert veiðigjaldið geti orðið. Í fyrsta lagi eins og ég sagði áðan þurfum við að vita hvert heildargjaldið verður og í öðru lagi þurfum við líka að vita hvert gjaldið verður á þorskígildiskíló því það skiptir máli, ekki bara fyrir okkur sem hér erum og munum fara í gegn með lagafrumvörpin með einum eða öðrum hætti, heldur líka þá sem koma til með að þurfa að greiða veiðigjaldið. Við heyrum það strax hjá útgerðarmönnum að flestir hverjir eru þegar farnir að kveinka sér undan því að þurfa að greiða þetta sértæka gjald sem þeir kalla til ríkissjóðs, þennan sérskatt á atvinnugreinina, þannig að það mun örugglega heyrast hljóð úr horni þaðan þegar fyrir liggur hvert gjaldið á að verða og við hljótum að þurfa að vita hvað kemur í staðinn þegar við fellum niður slík gjöld.