Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:06:43 (7609)

2004-05-04 17:06:43# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að svara öllum spurningum í svona viðamikilli ræðu sem ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Það er rétt að rætt var í sjútvn. hvort hægt væri að fá útreikninga um þetta og eins og ég sagði í framsögu minni fyrir nokkrum dögum var það ekki hægt því að viðmiðunarárið miðast við 30. apríl og nú eru liðnir aðeins tveir dagar frá því þannig að það er mjög erfitt að ná í þær tölur.

Sjútvn. setti upp gróft reiknilíkan til að reyna að átta sig á stærðinni á þessu. Þar gáfu þeir sér að aflaverðmætið væri 78 milljarðar og reiknuðu þá með því að tekjur yrðu 1.370 millj. Þeir segja samt sem áður að gengishreyfingar, aflasamdráttur og kostnaðarhækkanir miðað við þau 6% sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan, muni vera á bilinu 1,1--1,2 milljarðar sem eru sömu tölur og hv. þm. Jón Gunnarsson kom með. Ég get ekki lofað því að þetta verði tilbúið en ég verð vonandi með nánari upplýsingar á næsta fundi í sjútvn. Þeir eru ekki vissir um það, þeir eru að viða að sér upplýsingum og eins og ég sagði er þetta annar vinnudagurinn frá því að tímabilinu lauk þannig að við verðum bara að sjá hvað gerist í því. En hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hér tölur, 1.490 og 1.540 millj., við erum að tala um að veiðigjaldið eigi að vera 9,5% í krónum á þorskígildistonn en það verður fyrst til að byrja með 6% í stað 9,5 árið 2004, 6,6% árið 2005, 7,3% 2006, 8% 2007, 8,7% 2008 og 9,5% 2009. Ef við framreiknum þessar tölur miðað við 2009, þegar við sjáum heilt ár miðað við fullt álag, 9,5%, þá eru þetta tæpir 2 milljarðar miðað við að tökum ekki tillit til gengisbreytinga, gengið eins og það er í dag og eðlilegan afla þannig að þetta eru þær tölur sem við byggjum á í dag.