Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:11:32 (7611)

2004-05-04 17:11:32# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fleira sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan varðandi línuívilnunina. Það er ljóst að verið er að reikna út frá aflaverðmæti. Hann sagði áðan og það er alveg rétt að það var ekki sátt um hvaða leið yrði farin. Auðlindanefndin svokallaða vildi leggja á veiðileyfa- eða auðlindagjald eða fara fyrningarleiðina. Það var ákvörðun að fara þá leið þar sem miðað væri við aflaverðmæti að frádregnum olíukostnaði, reiknuðum rekstrarkostnaði og launakostnaði og þetta er niðurstaðan. En eins og hugmyndir sumra voru að leggja fast krónugjald á þorskígildiskíló þá hefði línuívilnun sennilega verið utan við það miðað við úthlutun. En menn eru að viða að sér gögnum, miklum gögnum, þannig að það eru engar tölur komnar, en eins og ég sagði skal það bara liggja fyrir á næsta fundi í sjútvn. hvort svo geti orðið. Ég átta mig náttúrlega ekki á því hvenær þinglok verða en þetta gerist vonandi í þessum mánuði.