Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:37:38 (7615)

2004-05-04 17:37:38# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar þá til að spyrja hv. formann sjútvrn., af því að ég veit að hann kemur úr miklu sjávarplássi, Vestmannaeyjum, og er eflaust áhugamaður um siglingasögu þjóðarinnar eins og margir af bæjarbúum Vestmannaeyja og annarra sjávarplássa vítt og breitt um landið: Gæti hann hugsað sér að ljá þessu máli lið og jafnvel styðja að við reyndum að nota eitthvað af þessum peningum í þetta merka mál?

Það er þannig, sem tengist Vestmannaeyjum, að ég nefndi Blátind áðan, Skaftfelling og eflaust fleiri minjar, gamla báta og annað þess háttar úti í Eyjum sem vel væri þess virði að setja peninga í til að bjarga. Slíkar menningarsögulegar minjar og sjávarútvegssöfn gefa plássum, t.d. Vestmannaeyjum, ákveðið gildi, þ.e. fortíðin. Við vitum öll að Vestmannaeyjar eiga sér mjög glæsta fortíð sem sjávarútvegspláss og menningarpláss.

Þetta var eitt, frú forseti, en mig langar líka að hnykkja á öðru, þ.e. spurningu sem ég kom að í upphafi máls míns áðan, varðandi lán sem þróunarsjóðurinn tók til að standa straum af kostnaði við hafrannsóknarskipið Árna Friðriksson. Mér er ekki kunnugt um hve hátt þetta lán var. Mér hefur einfaldlega láðst að grennslast fyrir um það. Kannski hv. formaður sjútvn. geti frætt okkur meira um það, bæði stöðu þessa láns og hvað eigi að verða um það núna á þessum árum sem eftir eru af starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.