Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:16:08 (7622)

2004-05-04 18:16:08# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég var reyndar búinn að halda ræðu mína um þetta mál, þ.e. fyrri ræðu mína. Ég sé hins vegar ástæðu til að koma aftur í ræðustól vegna upplýsinga sem hv. formaður sjútvn. kom á framfæri í andsvari í dag. Hann upplýsti að samkvæmt grófum áætlunum yrði veiðigjaldið sem lagt yrði á núna í fyrsta sinn líklegast í kringum 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli. Það þýðir að á þessu ári, árinu 2004, mun gjaldið sem skilar sér til ríkissjóðs vegna veiðigjalds verða í kringum 400 millj. kr. Þau tvö frumvörp sem við fáumst hér við þýða það að ríkissjóður verður af tekjum upp á 782 millj. kr. Miðað við það að við höfum ekki meiri upplýsingar en þetta er hátt í 400 millj. kr. tap ríkissjóðs fyrirsjáanlegt á þessu ári vegna þessara breytinga.

Ef þetta er niðurstaðan verð ég einfaldlega að spyrja: Hvers vegna ákveða menn að hafa þetta svona? Var einhver ástæða til þess og var ekki meiningin og var það ekki í því hluti af þeirri sátt sem talað var um, a.m.k. frá þeirra hendi sem lögðu upp með veiðigjaldið, að með því yrði greitt fyrir aðganginn að því að nýta auðlindina? Átti ekki að greiða meira heldur en áður hafði verið greitt? Hvernig stendur á því ef menn byrja á því, hið fyrsta ár veiðigjaldsins, að lækka önnur gjöld svo mikið að árið kemur út í stórum mínus? Það er auðvitað engin ástæða til þess.

Auðvitað hefði verið hægt að hafa frumvörpin um veiðigjaldið og þróunarsjóðinn þannig úr garði gerð að tekjurnar stæðust a.m.k. nokkurn veginn á við það sem ætlað var á árinu. Ég stóð reyndar í þeirri meiningu að með álagningu veiðigjaldsins, það var yfirlýst hér í umræðum á þinginu, mundi útgerðin greiða meira en hún hefur gert áður, ekki að hún greiddi minna. Er þetta handvömm? Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á því að menn velja lokadag fyrir veiðieftirlitsgjald og þróunarsjóð með þeim hætti að allt virðist stefna í að ríkissjóður verði í stórum mínus á þessu ári?

Ég sé ástæðu til að óska eftir því að staðið verði við það sem búið var að lofa. Ég hef svo sem engar efasemdir um að þetta mál verður tekið til umræðu. Ég tek þar með undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um að þetta mál verði tekið inn í sjútvn. á milli 2. og 3. umr. og að þar fari menn vandlega yfir það og fái upp á borðið hvers vegna svona er staðið að málum.

Ég tel satt að segja gjörsamlega óhugsandi að menn leggi í þessa göngu með þessum hætti nema þeir upplýsi um hvers vegna sinnaskiptin hafa orðið svo ótrúleg frá því að menn ákváðu að setja á veiðigjaldið. Þá var yfirlýst að veiðigjaldinu væri ætlað að innheimta frá útgerðinni hærri gjöld til sameiginlegra þarfa en áður. Eins og núna virðist til stofnað þá lækka þessi gjöld verulega og ríkissjóður verður af verulegum tekjum sem hann hafði áður. Það eru þó gjöld sem þjónusta er veitt fyrir. Veiðieftirlitsgjaldið fer auðvitað í þjónustu við útgerðina. Það liggja fyrir útreikningar um að útgerðin er að njóta miklu meiri þjónustu, í kostnaði fyrir ríkissjóð, en sem nemur þeim upphæðum sem hér er um að ræða. Það þarf að bíða nokkuð lengi eftir hækkun veiðigjalds til að þjónustan við útgerðina fáist greidd eða kostnaðurinn af henni fyrir ríkissjóð eins og hann liggur nú.

Ég vil fyrst koma því á framfæri, mjög skýrt og greinilega, að við í Samf. óskum eindregið eftir að fá betri og gleggri upplýsingar um það hvers vegna menn hafa valið að hafa tillögurnar með þessum hætti sem hér virðist ætla að verða niðurstaðan. Ég vil ekki trúa því að menn hafi ekki skoðað sig sæmilega um áður en hæstv. ráðherra ákvað að leggja þessi frv. fram með þeim hætti sem hér liggur fyrir og um hefur verið fjallað í nefndinni. Nefndin þurfti að fjalla um þetta mál án þess að fá neinar upplýsingar um hvert veiðigjaldið mundi verða á þessu ári, hve mikið mundi skila sér í ríkissjóð vegna veiðigjalds á þessu ári.

Þetta vildi ég nú sagt hafa um það og vonast til að hv. formaður nefndarinnar svari fyrir þetta og sé tilbúinn til þess að staðfesta að við tökum þetta mál til umræðu í nefndinni og kallaðir verði til þeir sem til þess eru bærir til að upplýsa okkur um það hver meiningin var með þessu öllu saman og hvernig stendur á því að það virðist stefna í þessa niðurstöðu, eða leiðrétta okkur ef svo ber undir. Það er alveg greinilegt að það verður ekki farið að innheimta veiðigjaldið fyrr en 1. september. Þá verður innheimtur þriðjungur af því gjaldi sem lagt verður á vegna fyrsta árs í veiðigjaldi. Miðað við þá grófu áætlun sem hv. þm. kom með getur sú upphæð ekki orðið hærri en í kringum 400 millj. kr. á þessu ári.

Úr því að ég er kominn í ræðustól þá vil ég taka undir það sem menn hafa sagt um þróunarsjóðinn og hlutverk hans. Það væri bæði þarft og við hæfi að sjóðurinn, sem vill svo til að ber nafn sem hann gæti borið með rentu, Þróunarsjóður sjávarútvegsins, gæti sinnt því hlutverki að styrkja söguminjar úr sjávarútvegi þar sem þróun sjávarútvegsins inn í framtíðina yrði sýnd. Það væri við hæfi að fjármunir til þess kæmu úr honum. Það er líka búið að lýsa því hér að vilji Alþingis hvað þetta varðar hefur komið fram. Verkefnin sem þarna eru fram undan eru mörg og stór og það er verulega mikil hætta á því að verðmæti haldi ella áfram að tapast í þeim menningarminjum sem fólgin eru í skipum á Íslandi, sérstaklega tréskipunum.

Nú stefnir í að Alþingi starfi svolítið lengur en við reiknuðum með í vor. Við gætum því gefið okkur góðan tíma til að fara yfir þau mál sem hér eru til umræðu. Það er enn langt til engjasláttar og enn er þess langt að bíða að hv. þm. Gunnar Birgisson dragi tjaldhæla sína úr jörð því að ekki hefur enn bólað á skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Við getum því gefið okkur enn betri tíma til að fara yfir þau málefni sem liggja fyrir þinginu.

Mig langar að bæta aðeins við þá ræðu sem ég hafði hugsað mér að halda um það hlutverk sem við höfum vanrækt hvað varðar varðveislu menningarminja í sjávarútvegi. Það liggur næst mér að nefna þau tvö verkefni sem á Akranesi bíða þess að menn geri eitthvað í þeim. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi kútterinn áðan og það er full ástæða til að tala um hann. Það þarf verulega fjármuni til að koma því skipi í það horf að hægt sé að varðveita það til framtíðar. Einnig vantar umbúnað um það þannig að það geti enst eftir þá miklu aðgerð sem gera þarf á því.

Það er líka annað skip á Akranesi sem á sér mjög merka sögu og varðveita þarf til framtíðar. Það er Höfrungur AK sem hefur undanfarin ár staðið í Slippnum á Akranesi og er virkilega áhugavert skip. Það er byggt árið 1955, ef ég man rétt, á Akranesi fyrir Harald Böðvarsson, það góða fyrirtæki. Þetta var mikið happaskip og hefur verið happaskip alla tíð. Það var happaskip hjá Haraldi Böðvarssyni og er í tiltölulega þokkalegu ástandi, skrokkurinn sjálfur. Töluvert hefur verið unnið að endurbótum á skipinu og að mínu viti er ljóst að það skip á að endurbyggja með það í huga að það komist á flot. Höfrungurinn var eitt af fjölveiðiskipum síns tíma. Þetta voru skipin sem notuð voru á vertíðum, notuð á línu og net og fóru á síld á sumrin. Höfrungur var, eins og ég sagði áðan, happaskip og frábært skip á margan hátt. Hann var teiknaður og smíðaður á Akranesi. Magnús Magnússon skipasmiður frá Söndum á Akranesi teiknaði þetta skip. Það var smíðað í Slippnum af skipasmiðum og með verkþekkingu á Akranesi. Þetta skip er í hættu núna. Það hefur staðið í reiðileysi í nokkur ár eftir að þeir sem vildu gera það upp höfðu ekki til þess fjármuni og getu. Nú ríður á að menn safni kröftum í að bjarga þessu skipi, ásamt kútternum auðvitað.

Ég vildi nefna þetta vegna þess að þarna eru a.m.k. tvö verkefni til staðar á þessu svæði. Víðar liggja verkefnin. Við höfum séð marga góða fulltrúa þessa tíma, í tréskipum, fara forgörðum. Við þyrftum að bjarga því sem bjargað verður. Ég tel að skoða þurfi vandlega hvort ekki eigi að gera breytingar á lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þannig að hann haldi áfram nafni sínu, verði áfram Þróunarsjóður sjávarútvegsins en fái nýtt hlutverk sem væri að sýna þróun sjávarútvegsins með því að styðja við þær menningarminjar sem tengjast sjávarútvegi, þá meina ég skip og aðra hluti sem minna okkur á þróun sjávarútvegsins marga undanfarna áratugi.

[18:30]

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þennan hluta en vík aðeins aftur að veiðigjaldinu í tengslum við umræðuna um þróunarsjóðinn. Við eigum eftir að ræða um veiðieftirlitsgjaldið líka en þessi tvö frumvörp hanga saman eins og áður hefur komið fram. Niðurstaðan sem virðist ljós núna vekur mér furðu. Það er búið að halda leyndu fyrir okkur hvað muni koma inn af veiðigjaldinu. Það tel ég vegna þess að ég get ekki trúað því að menn hafi ekki þá reikningsþekkingu í sjútvrn. eða geti ekki sótt sér hana eitthvað annað, að þar sé hægt að reikna nokkurn veginn hvaða gjöld gætu komið inn af veiðigjaldi miðað við þau lög sem eru í gildi. Við höfum margspurt eftir þessu en það er ekki fyrr en núna að við fáum grófa hugmynd um hvað geti skilað sér í veiðigjaldi, þ.e. sem hv. formaður nefndarinnar upplýsti um hér í dag. Af því virðist ljóst að ákveðið hafi verið af stjórnvöldum að lækka verulega þær fjárhæðir sem sjávarútvegurinn greiðir til ríkissjóðs á þessu ári. Þá skulda stjórnarliðar og stjórnvöld okkur skýringar á þeirri stefnubreytingu sem í því felst. Ég held því ekki fram að sjávarútvegurinn þoli miklar álögur. Það var heldur ekki ég eða við í Samf. sem komum á veiðigjaldi, við studdum ekki það mál. Við studdum alls ekki veiðigjaldið heldur greiddum atkvæði gegn því. Þeir sem studdu það höfðu þann rökstuðning uppi að þeir mundu leysa úr þeim þjóðfélagsvanda sem átökin um sjávarútveginn, um auðlindina, hafa verið. Af þeim sökum átti að leggja á veiðigjald og þess vegna þurftu útgerðarmenn að greiða til sameiginlegra sjóða fjármuni, sem ætti að innheimta með veiðigjaldi.

Nú virðist hafa orðið stefnubreyting sem fólgin er í því að um leið og veiðigjaldið er sett á virðast menn hafa gert það með þeim hætti að létta um leið af útgerðinni gjöldum til ríkissjóðs. Þetta er mjög merkilegt og full ástæða til að spyrja eftir því hvaða hugmyndir eru núna uppi. Ég skal fyrstur manna fagna því ef niðurstaða stjórnvalda í þessu landi er sú að veiðigjaldið sé della og finna eigi aðrar leiðir til að sætta þjóðina við stjórn fiskveiða.

Ég hef aldrei tekið undir það að skattleggja ætti útgerðina sérstaklega í landinu með þessum hætti. Samf. lagðist gegn því þegar það mál var til afgreiðslu á þinginu. Mér finnst kominn tími til að menn taki umræðuna upp aftur og geri það í alvöru með því að leita pólitískra sátta í þessu máli. Ég held að hægt sé að finna slíka leið. En þá verða menn að brjóta odd af oflæti sínu og gera það í alvöru með sáttum þar sem allir koma að, allir flokkar sem eiga fulltrúa hér á þingi en ekki ákveða það með samningi milli höfðingjanna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar eins og gerðist þegar ákveðið var að setja á veiðigjald.

Útgerðarmenn hafa, þótt þeir hafi beðið um að þessi leið yrði farin, kveinað hástöfum yfir því að þurfa að borga veiðigjaldið. Kannski erum við að upplifa það að stjórnvöld séu farin að sjá nýja skímu. Vonandi er það þannig en ekki hefur okkur verið sagt frá því. Þessi gjöld segja okkur a.m.k. að það er ekki meiningin, ekki á þessu ári a.m.k., að setja á raunverulegt veiðigjald. Varla gera menn það með því að lækka álögur á útgerðina í landinu eins og hér virðist stefna í.

Hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til að taka aftur til máls undir næsta þingmáli, sem er hangir saman við þetta. Veiðieftirlitsgjaldið er hitt frumvarpið í þessu máli. Þá fæ ég tækifæri til að halda ræður, a.m.k. eina og kannski tvær ef ég sé ástæðu til.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna. Ég óska eindregið eftir því að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson staðfesti að hann muni kalla nefndina saman og gefa okkur tækifæri til að fara yfir þessi tvö mál sem ég hef nú kosið að fjalla um saman í ræðu minni. Ég óska eftir því að við fáum þá fulltrúa úr ráðuneytinu, frá stjórnvöldum, sem væru tilbúnir til að upplýsa okkur um hvað er eiginlega á ferðinni, hvort það er stefnubreyting eða hvað menn eru að hugsa í þessum sjávarútvegsmálum núna. Það er greinilegt að það er eitthvað annað sem þeir eru að hugsa núna en þeir voru að hugsa þegar ákveðið var að setja á veiðigjald og sett voru lög um það.