Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:46:01 (7628)

2004-05-04 18:46:01# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Annað atriði sem fram kom hjá hv. þm. í stuttri seinni ræðu var að við sem hér höfum talað værum að lýsa yfir einhvers konar vantrausti á embættismenn. Það er af og frá og vísa ég því algjörlega á bug. Það sem ég sagði í ræðu minni var það að ég trúi ekki öðru en að þeir embættismenn, sem ég er alveg viss um að valda sínu starfi með miklum sóma og velta því fyrir sér eins og þeim ber hvaða tekjur komi til ríkisins í stað þeirra gjalda sem nú er verið að fella niður, hljóti að hafa reynt að reikna út þetta nýja veiðigjald með einhverjum hætti. Annað er með ólíkindum ef ekki er búið að fara yfir aflaverðmæti fyrstu 11 mánuði þessa viðmiðunartímabils, ef menn eru ekki þegar farnir að skoða hvernig olíukostnaðurinn hefur breyst, ef menn eru ekki þegar farnir að skoða hver áhrif vísitölu neysluverðs eru á annan rekstrarkostnað og ef menn eru ekki þegar farnir að reyna að taka saman aflaverðmætið sem þarna liggur á bak við.

Varðandi þær tölur sem hv. þm. fór með hér, u.þ.b. 1.200 millj., sem þetta gjald gæti verið þá var ég nú að leika mér með pennann minn í sæti mínu áðan, 78 milljónir í aflaverðmæti skildist mér á þingmanninum að hefðu verið, (Gripið fram í: Milljarðar.) 78 milljarðar hefðu verið lagðir til grundvallar og þá er þetta ósköp einfalt. Þessi áætlun byggir bara á því að launin eru 32 milljarðar, olían rúmir 6, annar rekstrarkostnaður 20, þá eru 20 milljarðar eftir og 6% af því eru 1.200 millj. Mér sýnist að ekki hafi kannski verið lögð mikil vinna í að reyna að reikna þetta út því eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar hefur orðið mikil breyting á samsetningu aflaverðmætis, hvort það komi síðan út í 78 milljörðum er eitthvað sem ég veit ekki. En veit þingmaðurinn hvort í raun er búið að reikna út breytinguna á olíukostnaðinum og öðrum rekstrarkostnaði eins og segir til í frv?