Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:48:14 (7629)

2004-05-04 18:48:14# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefði sagt í ræðu að það væri verið að halda einhverju leyndu að ekki væri komin niðurstaða. 30. apríl er viðmiðunardagur, það er 4. maí í dag. Það eru búnir að vera tveir vinnudagar í ráðuneytinu frá 30. apríl sl., mánudagur og þriðjudagur. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þar séu komnar lokaniðurstöður. Menn eru að viða að sér gögnum og það getur vel verið að útreikningar á olíukostnaði liggi fyrir. Við hv. þm. Jóhann Ársælsson ræddum báðir í dag við starfsmann í ráðuneytinu og sá aðili sem hefur verið með þetta mál var sennilega erlendis. Þannig að sá aðili sem við ræddum við var ekki alveg viss um hver staðan væri í þeim málum. En þær grófu tölur sem menn gengu út frá miðað við þær forsendur, og ef útreikningar Jóns Gunnarssonar eru réttir með 1.200 millj. miðað við 78 milljarða, þá er alveg ljóst að sú tala er ekki rétt, hún verður sennilega lægri þannig að það mun þá lækka. Ég þekki ekki hvaða forsendur liggja að baki þeim útreikningum, en ef penni hv. þm. Jóns Gunnarssonar er réttur þá mun niðurstaðan vera aðeins lægri.