Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:51:43 (7631)

2004-05-04 18:51:43# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég undrast þessa umræðu. Halda menn að fiski sem er landað þann 30. apríl í Vestmannaeyjum, inn á fiskmarkað, inn í frystihús eða í gám, halda menn að aflaverðmætistölur frá 1. maí til 30. apríl liggi fyrir nákvæmlega á mánudagsmorgni þegar 30. apríl var sl. föstudag? Þetta er ekki svona einfalt. Við erum að nálgast þetta á 100 millj. til eða frá eins og við ræddum um í dag og þegar útreikningar liggja fyrir kemur þetta til okkar í nefndinni. Ég ætla að kynna mér það fyrir fundinn á fimmtudag eða föstudag hvort þetta geti legið fyrir fljótlega og þá fæ ég bara skrifleg svör um málið. En ég get ekki ætlast til að þessar tölur liggi fyrir þannig að ég geti verið að kynna þær í dag miðað við 30. apríl. Það er ekki hægt að ætlast til þess. Það eru ekki komnar sölutölur erlendis eða neitt. Sú umræða er bara alveg út úr kortinu að gera þá kröfu í dag, 4. maí, tveim vinnudögum eftir að viðmiðunardegi lýkur.