2004-05-05 13:39:50# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að fyrir þeim sem hóf umræðuna hafi vakað að hér gæti farið fram efnisleg umræða um málið að hæstv. dómsmrh. fjarstöddum. Það hefur legið fyrir í nokkra daga að hæstv. dómsmrh. yrði fjarstaddur í dag þannig að ég þykist vita að mönnum hafi verið það mætavel ljóst, enda er út af fyrir sig ekki stofnað til þessarar umræðu undir þessum dagskrárlið til þess að við getum farið í þá efnislegu umræðu. Hins vegar hafa menn verið að kalla eftir efnislegri umræðu og það er auðvitað sjálfsagt að hún fari fram þegar viðeigandi tími fæst til þess og við getum gert það undir eðlilegum dagskrárlið. Ég verð hins vegar að segja að eins og umræðan hefur hafist í dag er ekki við því að búast að þetta verði mjög efnisleg eða málefnaleg umræða vegna þess að við höfum núna í höndunum álit frá umboðsmanni sem var gert heyrinkunnugt í gær og menn ættu a.m.k. að hafa það í fersku minni, en það er ekki að heyra a.m.k. þegar maður hlustaði á málflutning hv. síðasta ræðumanns sem talaði áðan, sem fór langt út fyrir álit umboðsmanns í túlkunum sínum á því sem sagt hafði verið af hálfu umboðsmanns.

Það er auðvitað til marks um það að hér hefur ekki verið ætlunin að reyna að draga fram efnislega umræðu um mál sem auðvitað verðskuldar umræðu í sjálfu sér, heldur var auðvitað fyrst og fremst verið að reyna að slá pólitískar keilur í fjarveru hæstv. dómsmrh. Það er það sem málið snerist um og það var auðvitað það sem menn voru að reyna að gera. Í trausti þess að hæstv. dómsmrh. væri ekki staddur hérna til að verja afstöðu sína efnislega var farið af stað með það að skrumskæla, snúa út úr og rangtúlka álit umboðsmanns og síðan að hefja árásir hæstv. dómsmrh. Hæstv. dómsmrh. hefur að vísu átt þess kost í fjölmiðlum að svara nokkuð fyrir sig. Og það er auðvitað algerlega rangt sem fram kom í máli hv. 5. þm. Reykv. n. að hæstv. dómsmrh. taki ekki ábendingar umboðsmanns alvarlega. Það kemur þvert á móti fram í umfjöllun hæstv. dómsmrh. í fjölmiðlum um málið að hann tekur það mjög alvarlega, hann ætlar að fara ofan í þessi mál. En hann vekur líka athygli á því að álit umboðsmannsins hnekki ekki ákvörðun sinni um skipun hæstaréttardómarans. Þetta séu ný sjónarmið sem þurfi að fara vandlega yfir en þarna sé fyrst og fremst um annmarka á málsmeðferð að mati umboðsmanns að ræða og það er mjög mikilvægt að menn geri greinarmun á þessu tvennu.