Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 13:59:01 (7646)

2004-05-05 13:59:01# 130. lþ. 110.1 fundur 771. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Helsta ástæða þess að ekki hefur tekist að ljúka samningaviðræðum við Kanada á vettvangi EFTA er sú að Kanada hefur ekki fallist á að semja um fríverslun á allar iðnaðarvörur. Það hefur verið algerlega ófrávíkjanleg grundvallarregla EFTA-ríkjanna í öllum fríverslunarsamningaviðræðum að niðurtröppun tolla á iðnaðarvörum sé þannig háttað að engar iðnaðarvörur séu undanskildar og niðurtröppunin endi í fullri fríverslun. Þetta er mjög mikilvægt hagsmunamál sérstaklega fyrir Ísland og Noreg þar sem sjávarafurðir flokkast sem iðnaðarvörur miðað við flokkun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Í tilviki Kanada eru þó erfiðleikarnir ekki bundnir við fiskafurðir eins og kom fram hjá hv. þm. heldur snúa þeir að skipum, bátum og skipasmíðavörum ýmiss konar. Skipasmíðaiðnaðurinn í Kanada er mjög áhrifamikill og hafa hagsmunaaðilar þar áhyggjur af samkeppni við skipasmíðaiðnaðinn í EFTA-ríkjunum, einkum norskan skipasmíðaiðnað, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, sem þeir telja að hafi í gegnum tíðina notið ríkisstyrkja og sé því í betri samkeppnisstöðu en sá kanadíski.

Í ársbyrjun samþykktu EFTA-ríkin nýjar tillögur um aðlögunartíma varðandi tollflokkana og þær voru sendar til Kanada í janúar. Nýverið hafa komið fram jákvæð viðbrögð frá Kanadamönnum vegna þessara tillagna og telja þeir að þær geti orðið grundvöllur frekari samninga um þetta erfiða mál. Ísland hafði fengið fund í apríl með aðalsamningamanni Kanada og háttsettum embættismönnum þar til að reyna að hreyfa frekar við málinu en sá fundur frestaðist vegna veikinda. Nú er unnið að því að fá slíkan fund í maí til þess að gera tilraun til að hreyfa frekar við málinu og kanna sjónarmið Kanadamanna frekar. Hins vegar er mjög líklegt að boðað verði til kosninga á næstu mánuðum í Kanada og því fremur ólíklegt að full svör fáist eða að formlegar viðræður fari af stað fyrr en eftir þær kosningar.

Það er hins vegar mikilvægt, þó að um afmarkaðan vöruflokk sé að ræða, að EFTA-ríkin standi saman og gefi ekki eftir þetta grundvallarsjónarmið í samningaviðræðum sínum því slík breyting eða eftirgjöf í einum samningi getur skapað fordæmi fyrir breytingum á öðrum iðnaðarvörum sem eru mikilvægari fyrir íslenskan útflutning í viðræðum við aðrar þjóðar síðar.