Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:02:21 (7647)

2004-05-05 14:02:21# 130. lþ. 110.1 fundur 771. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er með ólíkindum hversu mikið og lengi þetta mál hefur dregist. Ég stýrði sjálfur þeim fundi utanrmn. sem haldinn var að frumkvæði kanadískrar sendinefndar sem hingað kom vegna þess að Kanadamenn fýsti svo mjög að ná þessum tengslum við okkur. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli fyrir okkur að þessi samningur verði gerður. Ég veit að það er ekki við íslensk stjórnvöld að sakast í þessu máli. Ég veit líka um mikilvægi þess að samstaða sé innan EFTA. Við höfum hins vegar ekki náð mikilli samstöðu með Norðmönnum varðandi t.d. endurskoðun á EES-samningnum á meðan það mál var í deiglu og ég spyr þess vegna hæstv. utanrrh.: Kemur ekki undir neinum kringumstæðum til greina að við í þessu tilviki gerum tvíhliða samning við Kanada? Fyrir liggur óskoraður vilji Kanadamanna til að eiga góð samskipti við okkur. Ég minnist þess að hafa heyrt hjá hæstv. utanrrh. hljóð í þessa veru á ráðherrafundi EFTA og ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur til greina að gera tvíhliða samning við þessa góðu frændur okkar?