Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:11:48 (7652)

2004-05-05 14:11:48# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Fyrsta spurning hv. þingmanns er: Hve miklu fé hefur ríkissjóður varið til sprengjuleitar í Írak og hver hefur árangurinn orðið?

Áfallinn kostnaður vegna íslensku sprengjusérfræðinganna sem sendir voru til Íraks er 9 millj., þar af vegna tækja og búnaðar sem nýtist í framtíðinni rúmar 2 millj. Árangur af starfi þessara sérfræðinga í Írak varð verulegur. Meðal verkefna sem þeir unnu var að sprengjuhreinsa akra, skólabyggingar, leiksvæði, vegi og íbúðarhús. Samtals eyddu þeir eða gerðu óvirkar 3.076 sprengjur og sprengjuhluti eða um 19 tonn af sprengjuefni. Að auki tóku þeir þátt í að eyða rúmlega 60 tonnum af sprengjuefni á sérstökum eyðingarsvæðum.

Í 2. og 3. spurningum spyr hv. þm.: Hve miklu fé hefur ríkissjóður varið til sprengjuleitar á fyrrverandi æfingasvæði varnarliðsins í Vatnsleysustrandarhreppi og hver hefur árangurinn orðið? Hve miklu fé hefur ríkissjóður varið til sprengjuleitar á öðrum stöðum á Íslandi?

Fyrrverandi æfingasvæði í Vatnsleysustrandarhreppi var á 6. og 7. áratugnum tekið af hálfu utanrrn. á leigu af landeigendum til notkunar sem skotæfingasvæði fyrir varnarliðið. Svæði þetta var þó aldrei gert að varnarsvæði. Eins og algengt er á skotæfingasvæðum sprungu ekki allar sprengjurnar. Sumar þeirra lentu undir yfirborði og hafa með árunum verið að koma upp aftur. Á árunum 1986 og 1996 var gerð yfirborðsleit á þessu svæði. Þáverandi tækni leyfði ekki að gerð væri undirborðsleit með tækjum. Sú tækni er hins vegar til staðar og hefur Landhelgisgæslan haft yfir slíku tæki að ráða frá 2002. Frá þeim tíma hefur Landhelgisgæslan eyðilagt 129 virkar sprengjur þarna og tekið þaðan aðra 200 sprengjuhluti. Í þetta hafa farið rúmlega 600 vinnustundir.

Varnarliðið hafði þrjú æfingasvæði við Stapafell og hefur Landhelgisgæslan varið um 800 vinnustundum í að leita að sprengjum á þessum svæðum. Hafa um 300 sprengjur fundist þar frá árinu 2000.

Suður af Njarðvíkum er gamalt æfingasvæði og hefur Landhelgisgæslan varið um 60 vinnustundum í að rannsaka það og hafa þar fundist yfir 200 sprengjur frá árinu 2002. Kostnaður vegna leitar á æfingasvæði varnarliðsins á Vogaheiði og annars staðar á Suðurnesjum er áætlaður um 4 millj. en Landhelgisgæslan hefur einbeitt sér að því svæði. Við Kleifarvatn er jafnframt gamalt æfingasvæði sem notað var bæði í síðari heimsstyrjöldinni og af varnarliðinu. Um 20 sprengjur hafa fundist þar síðan árið 2000. Í þá leit hefur Landhelgisgæslan varið um 34 vinnustundum. Þá hefur hún fjarlægt sprengjubrot frá gömlum skotæfingasvæðum á Sandskeiði í Mosfellsdal og við Sandgerði.

Að því er varðar 4. spurninguna um hvort ekki sé þörf á að efla leit að sprengjum og eyðingu þeirra er því til að svara að á nokkrum undanförnum árum hefur Landhelgisgæslan unnið mjög þarft og gott starf við sprengjuleit á Íslandi. Vissulega er þörf á slíkri leit áfram. Stjórnvöld verða að styðjast við mat Landhelgisgæslunnar og staðbundinna yfirvalda á hvaða svæðum sé þörf á að viðhafa skipulagða leit. Um ábyrgðina að því er varðar 5. spurninguna er samkvæmt 1. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands, eitt af markmiðum hennar að ,,tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti, sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af``. Það er því Landhelgisgæslunnar að sjá um sprengjuleit enda er hún eina stofnunin í landinu sem býr yfir nauðsynlegri þekkingu í landinu til að framkvæma slíkar leitir. Teljist viðkomandi svæði enn þá vera varnarsvæði er leit að sprengjum og eyðingu þeirra undir yfirstjórn utanrrn. samkvæmt lögum nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðum. Hafi utanrrn. verið leigutaki að landi sem notað hefur verið sem æfingasvæði þótt það hafi ekki verið varnarsvæði hefur ráðuneytið engu að síður haft hönd í bagga með hreinsun, enda oft þurft að leita til varnarliðsins um margvíslegar upplýsingar og aðstoð eins og fyrrverandi æfingasvæði á Vatnsleysuströnd eru dæmi um.