Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:18:13 (7654)

2004-05-05 14:18:13# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil minna á það í tengslum við þessa þörfu fyrirspurn að fyrir þingi liggur tillaga mín og hefur gert lengi um úttekt á umhverfisáhrifum eða mengun af völdum erlendrar hersetu. Eitt af því sem þar er undir er auðvitað gömul skotæfingasvæði á nokkrum stöðum á landinu þar sem skotfæri og sprengjuhleðslur eru að grotna niður. Satt best að segja hefur ótrúlegt tómlæti lengi vel ríkt gagnvart þessu.

Ég geri ekki lítið úr því að þarft sé að leita að sprengjum í Írak. Ég tel þó að betur færi á því og félli betur að hefðum okkar Íslendinga að leggja okkar af mörkum á sviði borgaralegrar og friðsamlegrar þróunarsamvinnu, kenna mönnum að veiða og verka fisk, beisla jarðhita og þar fram eftir götunum. Næg eru verkefnin af því tagi sem ég held að við Íslendingar gætum betur einbeitt okkur að.

Það má líka segja að áður en menn verði í færum til þess að fara að taka til hjá öðrum eigi þeir að taka til heima hjá sér. Er það ekki jafnvel dálítið hlálegt að eyða miklum fjármunum í sprengjuleit í Írak á sama tíma og svo mikið verk er óunnið hér heima?