Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:22:58 (7657)

2004-05-05 14:22:58# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Það kom alveg skýrt fram hjá mér að ég tel nauðsynlegt að halda áfram að leita að sprengjum á þessu svæði. Sú tækni sem við þurfum á að halda í því sambandi varð hins vegar ekki til fyrr en 2002. Þessar sprengjur hafa lent undir yfirborði, hafa síðan verið að koma upp á yfirborðið og við þurfum að sjálfsögðu að halda leitinni áfram.

Ég verð að segja að mér finnst alveg óþarfi hjá hv. þingmanni að blanda þessu saman við sprengjuleit í Írak. Ég veit ekki hvað mönnum gengur til. Þetta er alveg eins og þegar verið er að tala um að við eigum ekki að vera í þróunarhjálp vegna þess að enn séu óleyst verkefni hér innan lands. Berum við enga ábyrgð til þess að taka þátt í því að hjálpa því fólki á alþjóðavettvangi sem þar er að berjast? (Gripið fram í: Höfum við enga ábyrgð heima?) Auðvitað höfum við ábyrgð heima en ég tel að það sé ósmekklegt í hæsta lagi hjá hv. þingmanni að blanda þessum málum saman með þeim hætti sem hann gerir.

Ég viðurkenni að sjálfsögðu þörfina á Suðurnesjum, það gerum við öll. En við höfum þá ábyrgð gagnvart alþjóðasamfélaginu að hjálpa þeim sem eiga við miklu meiri erfiðleika að etja en við höfum nokkurn tíma átt. Ég tel ósmekklegt af hv. þingmanni (Gripið fram í.) að blanda þessu saman og bið nú hv. þm. Helga Hjörvar að bíða þess að hann fái orðið hjá hæstv. forseta. Það væri rétt fyrir hv. þingmenn að tala meira í sínum eigin ræðutíma en að eyða ræðutíma annarra skipti eftir skipti í þinginu með frammíköllum.

(Forseti (JóhS): Það er hefð fyrir því að ef hv. þm. vilja gera athugasemdir í umræðum um fyrirspurnir geri þeir það áður en fyrirspyrjandi og hæstv. ráðherra ljúka síðari ræðum sínum.)