Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:41:44 (7665)

2004-05-05 14:41:44# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Hv. þm. spyr hvort endurskoða þurfi reiknilíkanið um skiptingu fjárveitinga milli framhaldsskóla þannig að fjárveitingar til grunnrekstrarliða verði óháðar nemendafjölda. Reiknilíkanið fyrir skiptingu fjár til framhaldsskóla var tekið í notkun fyrir fjárlagagerðina 1998 en lögfest með löggjöfinni frá 1996. Það var m.a. vegna þeirrar áherslu sem skólameistarar lögðu á að fá hlutlægar mælingar á skólastarfið og þær yrðu síðan grundvöllur fjárveitinganna sem þeir fengju til hvers og eins skóla.

Afstaða skólanna og skólameistaranna hefur ekki breyst og þeir eru yfirgnæfandi fylgjandi þessari aðferð. Meðal annars er í reiknilíkaninu kveðið á um lágmörk nokkurra rekstrarliða, svo sem vegna starfsmanna annarra en kennara, húsaleigu, orku og hitunar. Í reglugerð um líkanið var kveðið á um reglulega endurskoðun þess á fjögurra ára fresti hið skemmsta og endurskoðað reiknilíkan er að fullu komið til framkvæmda á árinu 2004. Nefnd fulltrúa fjmrn. og framhaldsskóla var menntmrn. til ráðgjafar við þá endurskoðun á árunum 2001--2002. Í þeirri endurskoðun var frá því gengið að þeir grunnrekstrarliðir sem skilgreindir voru í fyrstu útgáfu reiknilíkansins skiluðu sér ekki í lakari framlögum samkvæmt hinu nýja en verið hafði í eldra líkaninu.

Það er ljóst að leiði reglubundin endurskoðun á líkaninu í ljós að hagsmunum skólanna væri betur borgið með aðgreiningu grunnrekstrarliðanna og nemendafjölda er ekki óeðlilegt að mínu mati að slíkt yrði þá skoðað sérstaklega. Fram til þessa hefur góð meðferð almannafjár, bæði hér á landi og erlendis, verið talin best tryggð með því að hafa náin tengsl milli nemendafjölda og framlaga til framhaldsskóla. Síðan er það, eins og hv. þm. kom inn á, alltaf og verður að vera ávallt til skoðunar hvernig hagsmunum er best borgið innan þessa reiknilíkans. Líkanið verður að hafa ákveðinn sveigjanleika sem það hefur reyndar í dag og við höfum náð sæmilegri sátt með þessu reiknilíkani. Menn hafa, bæði í þessum stól og annars staðar, bent á ýmsa hnökra sem hafa fylgt því en menn hafa eftir fremsta megni reynt að taka einmitt á þeim hnökrum.

Þegar svona endurskoðun byrjar að eiga sér stað verður kerfið flóknara og flóknara og á endanum verður það svo flókið að enginn skilur það og þá byrjar allt aftur frá grunni og fer í ákveðna einföldun. Ég held að þetta sé í ákveðnu ferli hjá okkur, eðlilegu ferli, og við eigum að hafa það svigrúm innan kerfisins að við getum endurskoðað hlutina með tilliti til þess umhverfis sem viðkomandi framhaldsskólar standa frammi fyrir. Forsendurnar eru upphaflega þær sömu. Allir vilja hafa þann grundvöll að mælingarnar séu nokkurn veginn hlutlægar á skólastarfinu og það hef ég gert í sátt við skólameistarana sjálfa.