Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:47:53 (7668)

2004-05-05 14:47:53# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Oft hefur verið rætt hér um þetta ágæta reiknilíkan framhaldsskólanna og alltaf hefur verið full ástæða til þess. Það er rétt að taka fram að ég hef ætíð verið fylgjandi reiknilíkaninu sem slíku. Það er afskaplega nauðsynlegt til útreiknings á fjárveitingum en vandinn hefur hins vegar fyrst og fremst verið sá að reiknilíkanið hefur ekki fylgt þróuninni. Ýmis hlutföll hafa gjörbreyst í þessum útreikningum frá því að reiknilíkanið var tekið í gagnið og því miður hafa þær endurskoðanir sem átt hafa sér stað ekki verið fyllilega framkvæmdar í anda þess sem fyrir hefur verið lagt. Frá því að það var tekið í gagnið hafa tvær nefndir starfað. Þær hafa ekki lokið störfum. Þess vegna var það athyglisvert sem hæstv. ráðherra sagði, það er rétt að þessar nefndir hafa eingöngu verið til ráðgjafar. Ekki hefur verið farið algjörlega eftir þeim tilmælum sem þar hafa komið fram, m.a. um breytingar á hlutföllum. Það er hins vegar grundvallarforsendan til þess að þetta reiknilíkan geti fúnkerað eins og við viljum hafa það, þ.e. að ákveðin grunnupphæð fari til hvers skóla og síðan sé miðað við nemendafjöldann.

Annað sem er auðvitað gífurlegt vandamál er að því miður hefur fjmrn. ekki metið niðurstöður kjarasamninga rétt undanfarin ár.